Áhyggjur af þjóðaröryggi vegna skjalaleka

Úkraínskir hermenn í skotgröfum skammt frá Bakmút í Dónetsk-héraði í …
Úkraínskir hermenn í skotgröfum skammt frá Bakmút í Dónetsk-héraði í Úkraínu á laugardaginn. AFP/Genya Savilov

Bandarísk stjórnvöld reyna að meta hvaða áhrif það hefur á þjóðaröryggi landsins að fjölda háleynilegra skjala virðist hafa verið lekið á netið.

Bandaríska dómsmálaráðuneytið rannsakar málið. Svo virðist sem í skjölunum hafi verið úttektir og skýrslur frá leyniþjónustunni sem snúi ekki eingöngu að Úkraínu og Rússlandi heldur hafi einnig að geyma viðkvæmar greiningar á bandamönnum Bandaríkjanna.

Bandaríska varnarmálaráðuneytið er að skoða hvort skjöl sem voru ljósmynduð og eru í dreifingu á netinu séu ófölsuð. Að sögn aðstoðarblaðafulltrúa ráðuneytisins virðist þarna vera á ferðinni „viðkvæmt og háleynilegt efni“.

Bandaríska dómsmálaráðuneytið.
Bandaríska dómsmálaráðuneytið. AFP

„Innanhússrannsókn er hafin þar sem lögð verður áhersla á að meta hvaða áhrif þessi ljósmynduðu skjöl gætu haft á þjóðaröryggi Bandaríkjanna og á samherja okkar og vini,“ sagði Sabrina Singh.

Dómsmálaráðuneytið segist hafa verið í sambandi við varnarmálaráðuneytið vegna málsins og að rannsókn sé hafin.

Skjalalekinn virðist meðal annars sýna fram á deilur innan suðurkóreskra stjórnvalda um hvort útvega eigi Bandaríkjunum skotfæri til notkunar í Úkraínu, að sögn The New York Times.

Einnig virðist í skjölunum vera upplýsingar um innri deilur ríkisstjórna bandamanna Bandaríkjanna og skjöl sem sýna fram á hversu umfangsmiklar upplýsingar bandaríska leyniþjónustan hefur um rússnesk hernaðarmál.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert