John Kirby, talsmaður Hvíta hússins í þjóðaröryggismálum, segir það rangt sem fram kemur í umfjöllun dagblaðsins Washington Post, að forseti Egyptalands hafi fyrirskipað framleiðslu 40 þúsund eldflauga til að senda rússneskum stjórnvöldum.
Í það minnsta hafi Bandaríkin ekki vitneskju um það, eins og fullyrt er í umfjöllun dagblaðsins enda er hún reist á gagnaleka innan úr varnarmálaráðuneytinu í Washington.
„Við höfum ekkert séð sem gefur til kynna að Egyptaland sé að ljá Rússlandi banvæn vopn,“ sagði Kirby við blaðamenn í dag.
„Egyptaland er mikilvægur bandamaður í öryggismálum og verður það áfram.“
Þá bætti hann við að yfirvöld í Washington væru að setja sig í samband við bandamenn sína í kjölfar lekans, sem innihélt meðal annars viðkvæm gögn og greiningar Bandaríkjamanna á bandamönnum sínum.