Síðustu kjarnorkuverunum lokað

Kjarnorkuverinu í Neckarwestheim verður lokað í dag. Um 4 þúsund …
Kjarnorkuverinu í Neckarwestheim verður lokað í dag. Um 4 þúsund manns búa í Neckarwestheim og þar af vinna rúmlega 150 í verinu. AFP/Ina Fassbender

Raforkuframleiðslu verður hætt í dag í þeim þremur kjarnorkuverum sem eftir eru í rekstri í Þýskalandi. Hvítir gufubólstrar munu þá hætta að stíga upp frá orkuverunum í Neckarwestheim nálægt Stuttgart, Isar 2-verinu í Bæjaralandi og Emsland-orkuverinu í norðurhluta landsins.

Upphaflega átti að byrja að loka verunum þremur um síðustu áramót en því var frestað vegna orkukreppunnar í Evrópu í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

Raunar hafa stjórnvöld í mörgum vestrænum löndum ákveðið að færa út kvíarnar í rafmagnsframleiðslu með kjarnorku en Þjóðverjar halda fast við áætlanir sem voru gerðar í byrjun aldarinnar um að loka kjarnorkuverunum. Því ferli var flýtt eftir kjarnorkuslysið í Fukushima í Japan árið 2011. Angela Merkel, þáverandi kanslari Þýskalands, sagði þá að það sýndi að jafnvel í hátæknivæddu ríki á borð við Japan væru kjarnorkuver ekki örugg.

Skoðanir kjarnorkuandstæðinga höfðu mikinn hljómgrunn í Þýskalandi meðan á kalda stríðinu stóð og í kjölfar kjarnorkuslyssins í Tsjernóbýl árið 1986 og því naut áætlunin um lokun kjarnorkuveranna almenns stuðnings í Þýskalandi. En þegar Þjóðverjar hættu að geta treyst á ódýrt gas frá Rússlandi eftir innrásina í Úkraínu og orkuverð snarhækkaði fór almenningsálitið að breytast.

„Vegna hækkandi orkuverðs og mikillar umræðu um loftslagsbreytingar hafa að sjálfsögðu komið fram kröfur um að kjarnorkuverin verði rekin áfram,“ segir Jochen Winkler, bæjarstjóri Neckarwestheim, við AFP-fréttastofuna.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert