Sænska lögreglan leitar nú 17 ára gamals leigumorðingja dyrum og dyngjum eftir að honum tókst að flýja úr afplánun með því að fá tíma hjá tannlækni í Södertälje á fimmtudaginn. Á tannlæknastofuna komu tveir vopnaðir menn, yfirbuguðu tvo fangaverði og forðuðu sér með fangann í bifreið sem kona ók að sögn vitna. Sögðu sömu vitni alla atburðarásina ekki hafa tekið nema um tíu sekúndur.
Ungmennið hlaut tveggja ára og níu mánaða dóm fyrir að skjóta 55 ára gamlan mann til bana í líkamsræktarstöð í Stokkhólmi í mars í fyrra. Eftir því sem sænska ríkisútvarpið SVT hefur eftir heimildarmanni úr röðum lögreglu er ekki talið líklegt að hinn dæmdi hafi forðað sér úr landi – kenning lögreglunnar er skuggalegri en svo.
Telur hún að leigumorðinginn fari huldu höfði í Svíþjóð og hyggist nú ljúka því verki sem hann þegar hefur fengið greitt fyrir en það mun vera að ganga milli bols og höfuðs á tvítugum manni sem upphaflega var skotmarkið en tilræðismaðurinn skaut manninn í líkamsræktinni fyrir handvömm.
Segir heimildarmaðurinn að verkkaupinn krefjist efnda og hafi ungi maðurinn verið frelsaður úr prísund sinni í því augnamiði að ljúka verki sínu sem hann er sagður hafa þegið háa upphæð fyrir. Mikilvægt sé að þetta gerist áður en hann nær 18 ára aldri þar sem þá hljóti hann dóm sem fullorðinn einstaklingur en ekki sem ungmenni – þannig hlaut hann innan við þriggja ára dóm fyrir manndrápið í fyrra sem 18 ára eða eldri brotamaður hefði ekki hlotið.
Afplánaði strokufanginn á svokölluðu SiS-heimili á vegum Statens institutionsstyrelse sem rekur aplánunarlausnir fyrir ólögráða. „Það er engin ástæða til að flýja úr SiS-vistun, þetta er ekki lífstíðardómur eins og hann hefði fengið sem fullorðinn og þú átt fjölda möguleika þarna inni,“ segir heimildarmaðurinn sem SVT vitnar í.
Lögregla fylgist nú með nokkrum stöðum í Stokkhólmi þar sem talið er að líkleg skotmörk hins brottflúna hittist fyrir en ekki er vitað með vissu hver sá tvítugi er sem verkkaupi leigumorðingjans vill feigan.