Fimm milljónir dala fyrir að hafa rangt fyrir sér

Lindell er stofnandi fyrirtækisins My Pillow.
Lindell er stofnandi fyrirtækisins My Pillow. AFP/Octavio Jones

Stofnandi bandaríska koddafyrirtækisins My Pillow þarf að greiða hugbúnaðarsérfræðingi fimm milljónir bandaríkjadala eða 696,5 milljónir króna.

Greiðslan tengist fyrirtækinu þó ekki neitt heldur keppni sem hann efndi til eftir forsetakosningarnar árið 2020, þar sem hann hvatti fólk til þess að sanna að hann hefði rangt fyrir sér um afskipti Kína af kosningunum.

Mike Lindell, sem er mikill stuðningsmaður Trump, var sannfærður um að hann hefði í höndum sér gögn sem að sýndu svart á hvítu að Kínverjar hefðu tryggt Joe Biden sigur í ákveðnum ríkjum í forsetakosningunum. Hugbúnaðarsérfræðingnum Bob Zeidman tókst þó að sanna að svo var ekki og hefur gerðardómur nú gert Lindell að greiða Zeidman milljónirnar sem hann lofaði.

BBC greinir frá því að Zeidman hafi sent niðurstöður sínar inn til dómnefndar sem skipuð var vegna áskorunar Lindell en ekki fengið svar. Hann hafi því ákveðið að kæra Lindell til þess að fá það fé sem honum hafði verið lofað.

Einföld tafla í Word

Lindell hefur sagst munu áfrýja niðurstöðunni og kveðst ekki skulda Zeidman krónu, honum hafi ekki tekist að sanna neitt.

Í niðurstöðu gerðardómsins er tekið fram að ekkert af skjölunum sem Lindell hafi borið fram hafi tengst forsetakosningunum á nokkurn hátt.

Haft er eftir Zeidman þar sem hann segir gögn Lindell hafa samanstaðið af einföldu Word-skjali og töflu sem hafi átt að virðast flókin en hafi ekki verið það í raun.

Lindell hefur ekki átt sjö dagana sæla þegar kemur að kærum en hann hefur verið kærður af kosningavélafyrirtækinu Dominion Voting Systems (DVS) fyrir að hafa haldið ósannindum fram um framgang kosninganna. 

DVS höfðaði nýlega meiðyrðamál gegn fjölmiðlasamsteypunni Fox og var samsteypunni gert að greiða fyrirtækinu 109,6 milljarða króna í skaðabætur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert