Límdu sig við götur Berlínar

Lögreglan þurfti meðal annars að nota bor til að losa …
Lögreglan þurfti meðal annars að nota bor til að losa mótmælendur sem límdu sig fasta við götur Berlínarborgar. AFP

Umhverfisverndarsinnar hindruðu umferð víðs vegar um í Berlín í dag til að þrýsta á stjórnvöld þar í landi að gera meira í loftlagsmálum.

Aðgerðarsinnarnir stöðvuðu umferð með því að líma sig við yfirborð gatnanna, þar á meðal á fjölförnu hraðbrautinni A-100.

Um 33 stöðum var lokað klukkan 9 að staðartíma en um 500 lögreglumenn voru sendir á vettvang til að tryggja göturnar og fjarlægja mótmælendur. Lögreglan þurfti meðal annars að nota bor til að losa einn aðgerðarsinnann sem var þétt límdur við jörðina.

„Líkamlegt ofbeldi“

Christian Linder, fjármálaráðherra Þýskalands, fordæmdi aðgerðina á Twitter og líkti henni við líkamlegt ofbeldi.

„Engin ástæða, sama hversu göfug hún er, getur falið þá staðreynd að þessi gjörningur er ekkert annað en líkamlegt ofbeldi. Þeir sem vilja aðra stefnu geta stofnað sinn eigin flokk.“ 

Í yfirlýsingu sem Carla Rochel, talskona Last Generation hópsins, sendi frá sér segir að þau sætti sig ekki lengur við ástandið og þá staðreynd að stjórnvöld hafi enga áætlun um að stöðva eyðilegginguna sem er að eiga sér stað á tilverurétti fólks.

Haft var eftir Steffen Hebestreit, talsmanni Olafs Scholz kanslara, á blaðamannafundi að ríkisstjórnin hefði gert meira fyrir loftslagið en nokkurn tíma áður. Þá bætti hann því við að ríkisstjórnin styddi ekki aðferðir aðgerðarsinna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert