Mike Pence, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, bar vitni í gær í máli gegn Donald Trump sem snýst um ætlaðar tilraunir Trumps til að hnekkja staðfestingu Bandaríkjaþings á sigri Joes Bidens í forsetakosningunum árið 2020.
BBC greinir frá því að Pence, sem er 63 ára gamall, hafi svarað spurningum dómstóls í Washington-borg í sjö klukkustundir. Yfirheyrslur saksóknara fóru fram fyrir luktum dyrum.
Nokkrum klukkustundum fyrir vitnisburðinn vísaði dómstóll frá kröfum lögfræðinga Trumps til að koma í veg fyrir að Pence bæri vitni.
Þá höfðu lögfræðingar Pence einnig reynt að koma í veg fyrir að Pence þyrfti að bera vitni á þeim grundvelli að á meðan hann gegndi embætti varaforseta hafi hann einnig verið forseti öldungadeildarinnar og nyti því friðhelgi þingsins.
Rannsóknin á hendur Trump hefur staðið yfir í tvö ár og þykir líklegt að vitnisburður Pence marki ákveðin tímamót. Rannsóknin tekur einnig til þáttar Trump í árásinni á bandaríska þinghúsið í janúar árið 2021.
Í viðtali við CBS á sunnudag sagði Pence að hann myndi fylgja lögum og segja sannleikann.
Þess má geta að mögulegar tilraunir Trump til að hnekkja niðurstöðum kosninganna eru einnig til rannsóknar í Georgíu-ríki.