Bankahrunið hafi ekki bein áhrif á Ísland

Jón Daníelsson, prófessor við LSE, segir þá sem hafi tapað …
Jón Daníelsson, prófessor við LSE, segir þá sem hafi tapað á falli First Republic séu hlutabréfaeigendur bankans. Ljósmynd/Aðsend

Jón Daníelsson, prófessor við London School of Economics and Political Science í Bretlandi, segir ekkert benda til þess að fall First Republic bankans muni hafa bein áhrif á Íslandi. Þeir einu sem tapa séu hlutabréfaeigendur bankans.

„Þessir peningar eru ekkert tapaðir, peningur fer út úr þessum banka eitthvert annað. Þeir sem hafa tapað á First Republic eru hlutabréfaeigendur bankans. Það er bara þeirra hlutverk, þetta er bara áhætturekstur og þeir taka áhættuna,“ segir Jón í samtali við mbl.is.

JPMorgan Chase keypti First Republic bankann strax í kjölfarið á því að eft­ir­litsaðilar í Banda­ríkj­un­um lögðu hald á eign­ir bankans í nótt.

„Þessi banki er stór, en ekki með þeim stærstu. Hann er miklu minni heldur en stóru bankarnir í Bandaríkjunum eins og JPMorgan, Citibank og aðrir slíkir bankar,“ segir Jón.

Miðað við hagkerfið í Bandaríkjunum séu þetta ekki mjög háar tölur sem um er að ræða.

Peningum streymt úr valtari bönkum 

„Það sem hefur verið að gerast í Bandaríkjunum í allt vor, eftir að vextir fóru að hækka, þá hafa eignir bankanna, t.d. skuldabréf og lán fallið mikið í verði, og margir tryggðu sig ekki nóg fyrir því,“ segir Jón. 

Hann segir það einmitt hafa verið ástæðuna fyrir því að Silicon Valley banki varð gjaldþrota.

„Það sem gerist er það að fólk í Bandaríkjunum er komið með áhyggjur af því hvort að minni bankar, eins og þessi er, séu í hættu.

Þeir sem eru í viðskiptum við bankanna sjá að einhver banki er kannski valtari heldur en maður myndi vona þá einfaldlega taka þeir peningana sína út og flytja viðskiptin í næsta banka við hliðina á. Peningunum hefur streymt út úr þessum banka og yfir í aðra,“ segir Jón.

Bankar eins og First Republic geti ekki staðið undir slíku ef eignir þeirra eru festar í fjárfestingum til lengri tíma.

Hafi ekki áhrif á Íslandi

Jón segir ekkert benda til þess að fall First Republic muni hafa bein áhrif á íslenskan markað. Honum kæmi ekki á óvart ef fleiri bankar í Bandaríkjunum ættu eftir að fara á hausinn. 

„Ég er ekkert endilega að búast við því en það kæmi mér ekkert á óvart. Það er eðlilegur hluti af hagkerfinu sem við búum í að fyrirtæki verði gjaldþrota öðru hverju. Af hverju ekki bankar eins og annað? Þannig séð er þetta ekkert vandamál,“ segir Jón.

Aðrar aðstæður árið 2008

Jón segir að í fjármálakreppunni árið 2008 hafi verið einstakar aðstæður á bak við alþjóðlega bankakerfið sem eru ekki til staðar í dag.

„Það sem gerist þá [árið 2008], sem er ekki að gerast í dag, er að bankar víða um heim voru að taka ofboðslega mikið af skammtímaáhættu. Þeir voru aðallega að taka áhættu með lausafé og þeir voru að fjármagna sig mjög stutt og voru með langtíma fjárfestingar. Síðan gerist það að hluti af þessu sem þeir eru með er sett í skuldabréfavafninga sem var falin áhætta,“ segir Jón.

„Bandaríkin ráða alveg við þetta. Bankar eru alltaf að rúlla öðru hverju, það skiptir máli hvernig það er meðhöndlað. Eigendur bankans tapa öllu, ekkert vandamál við það og JPMorgan fær bankann á spottprís og gott fyrir þá,“ segir Jón að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka