Bandaríkjamenn neita aðild að drónaárás á Kreml

Rússar hafa sakað Bandaríkjamenn um að gefa Úkraínumönnum fyrirmæli um …
Rússar hafa sakað Bandaríkjamenn um að gefa Úkraínumönnum fyrirmæli um drónaárás á forsetabústað Pútíns. AFP

Rússar hafa sakað Bandaríkjamenn um að hafa gefið Úkraínumönnum fyrirmæli um að beina tveimur drónum að forsetabústað Vladimír Pútíns í Kreml aðfaranótt miðvikudags.

Samkvæmt talsmanni Pútíns, Dmitry Peskov, telja Rússar að Úkraínumenn hafi framið árásina, sem þeir kalla hryðjuverk og banatilræði við Pútín.

Rússar hafa haldið því fram frá upphafi innrásarinnar í Úkraínu að landið sé undir hælnum á Bandaríkjunum og Vesturlöndum, sem herji stríð gegn Rússlandi með Úkraínumenn að vopni. 

„Ákvarðanir sem þessar eru ekki teknar í Kænugarði, heldur í Washington,“ sagði Peskov „Kænugarður gerir bara eins og þeim er sagt.“

Búist við árásaraðgerðum Úkraínu í vor

John Kirby, talsmaður þjóðaröryggisráðs Hvíta hússins, vísar því alfarið á bug að Bandaríkin komi að árásinni. 

„Við vitum satt best að segja ekkert hvað átti sér stað þarna.“ Kirby segir bandarísk stjórnvöld hafa tekið skýrt fram að þau styðji ekki við árásir Úkraínumanna utan Úkraínu. 

John Kirby, talsmaður þjóðaröryggisráðs Hvíta hússins.
John Kirby, talsmaður þjóðaröryggisráðs Hvíta hússins. AFP

Talsmaður Úkraínuforseta Volodimír Selenskí, Mik­haíló Pódoljak, sagði Úkraínu ekki koma drónaárásunum á Kreml við, enda myndi það ekki uppfylla nein hernaðarleg markmið. 

Bandaríkin hafa verið leiðandi í að senda úkraínska hernum vopn og varnarkerfi og tilkynntu nýverið nýjan 300 milljón dollara hernaðaraðstoðarpakka. Selenskí segir Úkraínuher nú búa yfir um 98 prósent af því sem þurfi til að ráðast í árásaraðgerðir gegn Rússum í vor. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert