Suður Afríka vill endurheimta krúnudjásnin

Karl III Bretakonungur verður krýndur á laugardaginn, en Suður Afríkumenn …
Karl III Bretakonungur verður krýndur á laugardaginn, en Suður Afríkumenn hafa gert ákall um að hann skili gimsteinum sem prýða krúnudjásn hans. AFP

Undirskriftasöfnun í Suður Afríku gerir ákall til Karls III Bretakonungs um að skila demanti sem prýðir veldisstaf bresku krúnunnar, sem áætlað er að hann muni bera við krýningarathöfn sína á laugardaginn. 

Demanturinn kallast Stjarna Afríku og vegur 530 karöt, en hann fannst í Suður Afríku árið 1905. Bresk nýlendustjórn landsins færði svo bresku krúnunni demantinn að gjöf.

Ákall til bresku krúnunnar um að skila gimsteinum hefur aukist töluvert, þá sérstaklega eftir að bundinn var endi á aðskilnaðarstefnu (e. apartheid) landsins snemma á tíunda áratugnum og eftir heimsókn Elísabetar Englandsdrottningar árið 1995. 

Demanturinn táknrænn

Auknar umræður hafa verið í alþjóðasamfélaginu um skil á forngripum, minjum og listaverkum sem tekin voru frá heimalöndum sínum á nýlendutímanum, og prýða nú meðal annars söfn og krúnudjásn vestrænna nýlenduherra. 

Motushi Kamanga, lögfræðingur og aðgerðasinni, sagði í samtali við Reuters að demanturinn væri táknrænn fyrir stolt og menningu Suður Afríku. 

„Ég held almennt að Afríkumenn séu farnir að átta sig á því að afnám nýlendustefnunnar felist ekki aðeins í auknu frelsi, heldur einnig í því að endurheimta það sem tekið var frá þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert