Rasísk skilaboð fyrrverandi þáttastjórnendans Tucker Carlson, til fyrrverandi samstarfsfélaga hafa komið upp á yfirborðið. Í skilaboðunum kveðst Carlson hafa vonast til þess að þrír fylgjendur Trump myndu myrða mann sem þeir réðust að.
Skilaboðin hljóða á eftirfarandi veg í heild sinni, en New York Times greindi fyrst frá.
„Fyrir nokkrum vikum var ég að horfa á myndband af fólki að berjast á götum Washington. Hópur Trump fylgjenda umkringdi ungann stuðningsmann Antifa og byrjuðu að berja úr honum líftóruna. Þeir voru alla vega þrír á móti einum. Að veitast að manni á þennan hátt er auðvitað ekki virðingar vert. Þannig berjast hvítir menn ekki. En engu að síður fann ég á mér að ég hélt með þeim og vildi að þeir myndu lemja hann fastar, drepa hann. Ég vildi að þeir myndu meiða hann verulega. Ég fann bragðið af lönguninni.“
Carlson sendi skilaboðin 7. janúar 2021, fáeinum klukkustundum eftir að stuðningsmenn Donalds Trump, þáverandi forseta, réðust inn í þinghús Bandaríkjanna. Skilaboðin komu svo í ljós í kjölfar meiðyrðamáls kosningafyrirtækisins Dominion Voting Systems (DVS) gegn Fox News-sjónvarpsstöðinni. Málinu lauk með sáttargjörð sama dag og réttarhöld áttu að hefjast í því, og samþykkti Fox News að greiða skaðabætur upp á 787,5 milljónir bandaríkjadala til DVS.
Carlson lét af störfum hjá Fox News-stöðinni í kjölfar málsins. DVS hélt því fram að hann, meðal annarra, hefði tekið þátt í að dreifa röngum og misvísandi upplýsingum til almennings, um að kosningunum hefði verið „stolið“ frá Trump.
Carlson mun hafa haldið fram öðrum skoðunum baksviðs en í sönnunargögnum málsins kemur fram að hann hafi tjáð samstarfsfólki sínu að hann hataði Trump og teldi ekki að kosningarnar hefðu farið fram með ólögætum hætti.
Talið er að uppgötvun skilaboðanna hafi leitt til þess að Carlson lét af störfum, en margir voru undrandi yfir að hann hætti með litlum fyrirvara og án lokaþáttar eins og venjan er með vinsæla þætti vestanhafs. Einnig voru margir undrandi á því að Fox News ákvað að taka vinsælasta þátt stöðvarinnar af dagskrá.
Carlson sendi fleiri skilaboð, sem ekki hafa verið gerð opinber til að vernda friðhelgi hans, en fjölmiðlar hafa hvatt dómarann í málinu til að birta sum skilaboðanna.