Norska þjóðaröryggisstofnunin NSM biður ríkisstjórn landsins að vakna af værum blundi og átta sig á þeirri öryggisógn sem landið stendur að mati stofnunarinnar frammi fyrir. „Neðansjávarinnviðir eru einkum berskjaldaðir fyrir skemmdarverkum,“ segir meðal annars í skýrslu NSM um málið sem lítur dagsins ljós í dag.
Árið 2021 hurfu 4,2 kílómetrar af neðansjávarkapli úti fyrir Vesterålen sporlaust og er meðal þess sem dæmi eru tekin um í skýrslu stofnunarinnar. Enn í dag veit enginn örlög kapalsins, lögregla hætti rannsókn sem engu skilaði, og leggur NSM fram það álit í skýrslu sinni að norskra innviða sé ekki nógu vendilega gætt. Tíundar stofnunin 50 öryggisbresti á norsku yfirráðasvæði.
„Dæmin sýna okkur í kjölfar innrásarinnar [í Úkraínu] að innviðir neðansjávar, sem flytja gas, orku og rafræn boð, geta verið sérstaklega berskjaldaðir og viðkvæmir gagnvart skemmdarverkum og athöfnum sem ógna öryggi á umbrotatímum,“ segir í skýrslu NSM.
„Ástandið er alvarlegt í þeim skilningi að við þurfum að breyta okkar verklagi mjög fljótt,“ segir Sofie Nystrøm, forstöðumaður NSM, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. „Nú sjáum við að margar stofnanir hafa tekið sig á í öryggismálum en við vörum við þeim hugsanagangi að þar með sé þetta bara komið,“ segir Nystrøm.
„Við búum í landi þar sem friður hefur ríkt um langt skeið,“ heldur hún áfram og bendir á að langvarandi friður sé eini raunveruleiki núlifandi kynslóða. „Við verðum að vakna og sjá þau vatnaskil sem orðið hafa í Evrópu í öryggislegu tilliti eftir innrásina í Úkraínu,“ segir Nystrøm enn fremur.
Þjóðin þurfi að átta sig á þeirri gríðarlegu þýðingu sem olía og gas hafi fyrir þróun mála í Evrópu. Í hafdýpinu úti fyrir ströndum landsins sé að finna 9.000 kílómetra af rörum sem flytja olíu og gas til og frá Noregi. Á þessu þurfi yfirvöld að átta sig og á þessum vettvangi sé landið berskjaldað fyrir skemmdarverkum.
Ekki er langt síðan norsku ríkisútvarpsstöðvarnar hleyptu af stokkunum hinu viðamikla upplýsingaverkefni Skuggastríðið sem meðal annars fjallar um umfangsmiklar njósnir Rússa í og við skandinavísku löndin, mikið til með aðstoð skipaumferðar hvort sem þar fara rússneskir togarar eða dularfull rannsóknarskip með gríðarmikil fjarskiptamöstur og -búnað.
NSM hvetur til stóraukinnar meðvitundar og varkárni á sviði fjarskipta, gervihnattaþjónustu og alls flutnings orku, hvort sem þar fari rafmagn eða jarðefnaafurðir. Í skýrslu stofnunarinnar segir berum orðum að norsk stjórnvöld verði að sjá – og skilja – heildarmynd þeirrar ógnar er að landinu steðji.
„Skilning okkar á þeim aðstæðum sem við nú erum í – og munum verða í – þarf að ígrunda betur og hann verðum við að efla,“ segir Nystrøm forstöðumaður að lokum.