Kínversk stjórnvöld boða för sendinefndar í næstu sem heimsækja mun nokkur Evrópulönd, þar á meðal Úkraínu og Rússland. Frá þessu er greint í dag og auk þess því að Li, fyrrverandi sendiherra Kína í Rússlandi, árabilið 2009 til 2019, muni leiða förina til Úkraínu.
Undanfarna mánuði hafa Kínverjar sýnt tilburði til að gerast einhvers konar milligönguaðili við lausn stærstu vandamála heimsbyggðarinnar frá Úkraínu til Mið-Austurlanda. Kveðast kínversk stjórnvöld gæta hlutleysis í Úkraínumálinu og hafa sætt gagnrýni fyrir að verða ekki við fjölda áskorana um að fordæma innrás Rússa.
Wang Wenbin, talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, sagði á blaðamannafundi í dag að tilgangur farar Lis og föruneytis hans til Úkraínu, Póllands, Frakklands, Þýskalands og Rússlands væri að „ræða við alla hlutaðeigendur um pólitískt samkomulag í Úkraínudeilunni.
Sýndi förin enn fremur að Kínverjar væru „fullkomlega hlynntir friði“. „Kínverjar eru allir af vilja gerðir til að leika uppbyggingarhlutverk í vopnahlésumleitunum á alþjóðavettvangi og eru fylgjandi endalokum stríðsátaka og friðarviðræðum en ekki ástandi sem stigmagnast,“ sagði talsmaðurinn enn fremur.
Ferðalagið væntanlega hefur þó vakið efasemdir víða. Áður en Li lét af sendiherraembætti sínu í Moskvu á sínum tíma sæmdi Vladimír Pútín Rússlandsforseti hann Vinaorðunni, Orden Druzhby á rússnesku.
Nýlega áttu Xi Jinping Kínaforseti og Volódímír Selenskí, forseti Úkraínu, símtal sem sá síðarnefndi lýsti sem „löngu og þýðingarmiklu“ og fylgdi það í kjölfar þess er Kínverjar gáfu út stöðuskýrslu um Úkraínu í febrúar. Voru þar tólf atriði tínd til og hvatt til samtals og virðingar fyrir fullveldi allra þjóða. Þótti orðaval skjalsins fremur almennt þegar vestrænir leiðtogar tóku það til skoðunar en nægði þó til þess að Selenskí lýsti því yfir að hann væri reiðubúinn til viðræðna við Kínaforseta.