Joe Biden forseti Bandaríkjanna kallaði kynþáttahyggju stærstu hryðjuverkaógn við Bandaríkin, í opnunarræðu sinni við Howard háskóla.
Skólinn er einn virtasti háskóli landsins og er sögufrægur skóli innan svartrar menningar í Bandaríkjunum, en flestir nemendur hans eru dökkir á hörund. Þess má geta að varaforseti Bidens, Kamala Harris útskrifaðist úr skólanum.
Biden gaf í skyn í ræðu sinni að vaxandi umburðarlyndi fyrir kynþáttahatri væri bein afleiðing forvera hans, Donald Trump, en nefndi hann þó aldrei á nafn samkvæmt New York Times.
Biden vitnaði hins vegar beint í orð Trumps, sem hann lét falla í kjölfar mótmæla í Charlottesville 2018, en mótmælendurnir voru þúsundir ný-nasista, Ku Klux Klan-félaga og hægri þjóðernissinna. Margir særðust og þrír létust, en Trump sagði „gott fólk á báða bóga.“
Biden tilkynnti fyrir tæpum þremur vikum að hann hygðist sækjast eftir endurkjöri í kosningunum á næsta ári. Biden var kjörinn árið 2020 en margir telja atkvæði svartra kjósenda hafa tryggt honum forsetaembættið.
Stuðningur meðal svartra kjósenda hefur hins vegar farið dvínandi á kjörtímabili hans og mældist nýlegast undir 60 prósent, en stuðningurinn mældist í kring um 90 prósent fyrstu fimm mánuði hans í embætti.