Anna Rún Frímannsdóttir
Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, lenti í París fyrir stundu en hann er þangað mættur til að ræða við Emmanuel Macron, Frakklandsforseta. Selenskí fór beint til Parísar í kvöld eftir að hafa tekið á móti Karlsverðlaununum í Þýskalandi fyrr í dag.
„Tengslin við Evrópu eru að verða sterkari og þrýstingurinn á Rússland eykst,“ tísti Selenskí við komu sína á flugstöðina í Villacoublay, suðvestur af París, í kvöld.
Paris. With each visit, Ukraine's defense and offensive capabilities are expanding. The ties with Europe are getting stronger, and the pressure on Russia is growing. I will have a meeting with my friend Emanuel and we will talk through the most important points of bilateral…
— Володимир Зеленський (@ZelenskyyUa) May 14, 2023
Macron bauð Selenskí skömmu síðar velkominn í Elysee-höllina, í annað sinn síðan Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar á síðasta ári. Haft var eftir talsmanni á skrifstofu franska leiðtogans að forsetahjónin myndu ræða stuðning Frakka við Úkraínu yfir kvöldverðinum í forsetahöllinni og þá einkum hvernig bregðast þurfi við brýnum hernaðar- og mannúðarþörfum Úkraínu. Þá myndi Macron árétta stuðning Frakklands og Evrópu við að endurheimta lögmæt réttindi Úkraínu og verja grundvallarhagsmuni landsins.
Koma Selenskís til Parísar var eins og fyrr segir aðeins nokkrum klukkustundum eftir að leiðtogar ESB í Þýskalandi fögnuðu úkraínsku þjóðinni fyrir að berjast fyrir frelsi og gildum sambandsins og afhentu honum Karlsverðlaunin í ár fyrir þjónustu í þágu evrópskrar samstöðu og einingar.