„Í dag færist friðurinn nær“

Selenskí var hughraustur þegar hann mætti á fundinn og fagnar …
Selenskí var hughraustur þegar hann mætti á fundinn og fagnar því að Bandaríkin muni leyfa afhendingu F-16 þotna. AFP

Volodimír Selenskí forseti Úkraínu hafði sagst ætla að ávarpa G7-leiðtogafundinn í gegnum fjarfundabúnað, en mætti svo óvænt í eigin persónu til Hiroshima í Japan. Selenskí hefur ekki ferðast lengra frá heimaslóðum síðan stríðið skall á. 

Selenskí mætti hughraustur til fundarins, eftir að Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hafði skömmu áður látið í ljós jákvæða afstöðu sína til ítrekaðrar beiðni Selenskí um aðgang að bandarísku F-16 herþotunum.

Þegar Selenskí steig út úr flugvélinni lýsti hann því yfir að fundurinn ætti eftir að leiða af sér aukna samvinnu til sigurs. „Í dag færist friðurinn nær.“

Selenskí stígur út úr flugvélinni í Hiroshima.
Selenskí stígur út úr flugvélinni í Hiroshima. AFP

Samstarfsverkefni að þjálfa Úkraínuher

Sérfræðingar eru á sama máli um að það muni bæta hernaðargetu Úkraínu stórlega, að fá F-16 þoturnar. Selenskí hefur verið á flakki að undanförnu gagngert í þeim tilgangi að fá umræddar þotur. 

Til þessa hefur Biden tekið fyrir það að Úkraínu verði lagðar til F-16 herþotur, og önnur vestræn ríki hafa einnig verið tvístígandi yfir þessari beiðni Selenskí en þar sem um er að ræða bandarískar þotur þá verða þær ekki afhentar nema með samþykki Bandaríkjamanna. 

Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, brást við jafnskjótt og Biden hafði lýst yfir jákvæðri afstöðu sinni, og kynnti áform Bretlands, Bandaríkjanna, Belgíu, Hollands og Danmerkur um milliríkjasamstarf.  Framangreind lönd munu í sameiningu undirbúa her Úkraínumanna undir notkun þotnanna, m.a. með því að veita nauðsynlega þjálfun. 

Það fer vel á með þeim Macron og Biden.
Það fer vel á með þeim Macron og Biden. AFP
Sunak og Selenskí ræða málin.
Sunak og Selenskí ræða málin. AFP

Viðvera Selenskí valdi straumhvörfum

Á leiðtogafundinum var einnig tekin mynd af Selenskí og forsætisráðherra Indlands, Narendra Modi, þar sem þeir tókust í hendur. Indland er meðal þeirra þjóða sem enn hefur ekki viljað fordæma innrás Rússlands í Úkraínu. 

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, telur viðveru Selenskí á fundinum til þess fallna að valda straumhvörfum, enda fái hann nú einstakt tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við þróunarríki á borð við Brasilíu og Indland. 

Macron fagnar komu Selenskí.
Macron fagnar komu Selenskí. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert