Myndskeið: Tugþúsundir yfirgefið heimili sín á Ítalíu

Fleiri en 36 þúsund manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna mannskæðra flóða í norðausturhluta Ítalíu.

Fleiri hús hafa orðið flóðunum að bráð í dag og nýjar aurskriður einangrað þorp í landshlutanum.

Fyrr í vikunni urðu miklar rigningar fjórtán manns að bana, þegar götur í borgum og bæjum héraðsins Emilia-Romagna urðu hreinlega að vatnsmiklum ám.

Meloni snýr fyrr heim

Enn átti eftir að rigna meira og hafa yfirvöld framlengt rauða veðurviðvörun fram til morgundagsins.

Forsætisráðherrann Giorgia Meloni sagðist í dag myndu yfirgefa fund G7-ríkjanna í Japan fyrr en ella, til að eiga við vandann heima fyrir.

„Í hreinskilni þá get ég ekki dvalið svo fjarri Ítalíu á svo flókinni stundu,“ sagði hún við blaðamenn. Þakkaði hún um leið þeim fimm þúsund manns sem hafa hjálpað þeim sem urðu fyrir flóðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert