Finnst hún svikin og yfirgefin

AFP

Valdataka talibana í Afganistan var kveikjan að því að norski blaðamaðurinn Åsne Seierstad ákvað að skrifa bókina Afganirnir. Fyrir tuttugu árum skrifaði hún bókina Bóksalinn í Kabúl um umrótið þegar Bandaríkjamenn steyptu stjórn talibana eftir hryðjuverkin 11. september 2001. Nýja bókin er sögð frá sjónarhóli þriggja Afgana. Einn þeirra er Ariana, sem er rúmlega tvítug og var í laganámi. Nú situr hún heima og fær ekki að ljúka námi. Draumur hennar um að verða dómari er að engu orðinn.

„Fólki eins og Ariönu finnst það hafa verið yfirgefið,“ segir Seierstad, sem var gestur á Bókmenntahátíð í Reykjavík í apríl. „Hún elskaði Bandaríkin og finnst hún hafa verið svikin. Sér hafi verið ýtt áfram og vonir kveiktar og spyr sig hvers vegna sé verið að hjálpa fólki að mennta sig ef það geti síðan ekki notað menntunina. Það skiptir líka máli að þegar við fórum fluttum við elítuna í burtu, það fólk, sem hefði getað spyrnt við. Nú situr það hér á Vesturlöndum, í Noregi eða Kanada, en eftir situr fólk eins og Ariana, sem er ekki með neinn pólitískan bakgrunn eða tengslanet.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Seierstad talar í bókinni einnig um það að Bandaríkjamenn hafi gert grundvallarmistök í upphafi með því að leyfa talibönum ekki að koma að samningaborðinu eftir að þeir voru hraktir frá völdum. Hún lýsir því að talibanar hafi á sínum tíma haft áhyggjur af því hvað Osama bin Laden og hryðjuverkasamtökin al-Qaeda, sem höfðu fengið griðastað í landinu, hygðust fyrir. Þeir voru á þeim tíma að reyna að verða gjaldgengir í alþjóðasamfélaginu og vildu ekki að talibanar spilltu því. Þeir voru ekki hafðir með í ráðum þegar hryðjuverkin voru gerð í Bandaríkjunum 11. september 2001, en fannst þeir vera í þeirri stöðu að geta ekki framselt bin Laden og samverkamenn hans.

„Ég held einmitt að þar hafi menn misstigið sig alvarlega í Bonn í desember 2001,“ segir hún. „Talibanarnir báðu um að fá að koma, en Bandaríkjamenn tóku það ekki í mál. Talibanarnir höfðu því enga leið til að hafa áhrif aðra en að beita valdi. Bandaríkjamenn litu á al-Qaeda og talibana sem eitt, en það er ekki raunin. Al-Qaeda eru hryðjuverkasamtök og Afganar hýstu þá og það þurfti að bregðast við því – en þurfti það að kosta 20 ára stríð? Það er hins vegar auðvelt að sjá hluti eftir á, en það er kannski erfiðara í hríðinni miðri þegar dauðaleit stendur yfir að bin Laden. Auðvitað átti þetta heldur aldrei að standa svona lengi, en svo líður eitt ár og svo annað.“

Viðtalið við Seierstad birtist í heild sinni í Sunnudagsblaðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka