Li Hui, sérlegur erindreki kínverskra stjórnvalda, lauk för sinni um Evrópu í dag í Brussel. Fékk hann skýr skilaboð er hann hitti fulltrúa ESB um að Kína ætti að beita þrýstingi sínum á Rússa að hætta árásum sínum á Úkraínu og að draga herafla sinn úr landi.
För Li Hui heldur áfram til Moskvu á morgun og hefur hann þá þessi skilaboð í farteskinu. ESB sagðist fagna að hann hafi í síðustu viku lagt leið sína til Kænugarðs og eins að Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti hafi fengið símtal frá Xi Jinping, leiðtoga Alþýðulýðveldisins Kína.
Enn gætir töluverðrar tortryggni í garð Kína í sambandi við Úkraínustríðið, enda hafa þeir ekki opinberlega fordæmt innrás Rússa. För Li Hui er tekin til marks um að Kína ætli sér hlutverk í því að koma á friði í Úkraínu.