Sködduðu Úkraínumenn gasleiðsluna?

Myndir á borð við þessa skreyttu gervalla fjölmiðlaflóru heimsins í …
Myndir á borð við þessa skreyttu gervalla fjölmiðlaflóru heimsins í september, gasstreymi úr Nord Stream 2-leiðslunni í Eystrasalti upp að yfirborði sjávar. AFP

Bönd skemmdarverkanna á Nord Stream-gasleiðslunni í Eystrasalti í fyrrahaust berast nú að Úkraínu. Frá þessu greinir þýska dagblaðið Spiegel í dag og segir í umfjöllun sinni af gögnum um tölvupóstsamskipti sem snúast um leigu á seglbáti.

Að þeirri rannsókn hafi þýskir rannsakendur komið og telja þeir sig, að sögn Spiegel, hafa borið kennsl á Úkraínumann á miðjum þrítugsaldri með tengsl við úkraínska herinn. Á sá að hafa leigt umræddan bát, Andromedu, við sjötta mann og haldið til hafs.

Eða voru Rússar kannski að verki eftir allt?

Munu þeir, að sögn þýsku fjölmiðlanna NDR, WDR og dagblaðsins Süddeutsche Zeitung, sem kannað hafa málið í samstarfi við fleiri miðla, hafa leigt Andromedu í nafni fyrirtækis í Kænugarði og velta miðlarnir því nú fyrir sér hvort hópurinn hafi starfað sjálfstætt eða á vegum úkraínska ríkisins.

Fram kemur þó í umfjöllun fjölmiðlanna að ekki sé unnt að útiloka að ótilgreindur aðili eða aðilar, til dæmis innan vébanda Rússlands, hafi dulið slóð sína og reynt að gera Úkraínumenn tortryggilega í sambandi við skemmdarverkin. Almennt var talið að Rússar væru ábyrgir þegar sprenging varð við gasleiðsluna en þeir sóru það af sér og kenndu vestrænum ríkjum um.

Þýsk, sænsk og dönsk lögregluyfirvöld hafa unnið að rannsókn málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert