Þingmenn í Rússlandi hafa lagt fram drög að frumvarpi sem kveður á um bann við kynstaðfestingaraðgerðum í landinu.
Samfélagið í Rússlandi hefur í marga áratugi verið óvinveitt hinsegin fólki og frá því að innrásarstríðið í Úkraínu hófst hafa stjórnvöld einungis skerpt á íhaldssamri stefnu sinni.
Í drögunum að frumvarpinu sem var lagt fram í gær er lagt bann við „læknisfræðilegu inngripi sem er ætlað að breyta kyni manneskju“, að því er fram kemur á vefsíðu rússneska þingsins.
Í drögunum kemur einnig fram að stjórnvöld muni útbúa lista yfir undantekningar á læknisfræðilegum inngripum tengdum „meðferðum vegna líffræðilegra frávika í börnum“, sem verða leyfð.
Þá munu einstaklingar ekki geta breytt opinberri skráningu á kyni hjá ríkinu verði frumvarpið samþykkt í óbreyttri mynd en þar er kveðið á um að nauðsynlegt sé að hafa undirgengist kynstaðfestingaraðgerð áður en slíkt sé heimilt.
Drögin að frumvarpinu eru nýjasta útspil þingmanna er varðar aðför að réttindum hinsegin fólks frá því að stríðið byrjaði. Um 400 þingmenn styðja við frumvarpið.
Síðasta haust voru lög um „samkynhneigðan áróður“ hert í landinu en breytingin fól í sér bann við jákvæðum tilvísunum og birtingarmyndum af hinsegin samböndum.
Samtökin Rainbow Europe gefa Rússlandi falleinkunn í málefnum hinsegin fólks og situr landið í þriðja neðsta sætinu á lista yfir Evrópulönd hvað varðar umburðarlyndi gagnvart hinsegin fólki.