Lögreglan í Svíþjóð hefur handtekið 35 ára konu sem grunuð er um tilraun til manndráps.
Konan er grunuð um að hafa stungið 15 ára stúlku í bakið í miðborg Angelholm. Lögreglan segir engin tengsl vera milli konunnar og stúlkunnar.
Fram kemur í yfirlýsingu frá lögreglunni að stúlkan liggi þungt haldin á sjúkrahúsi. Stúlkan er sögð hafa verið vakandi og viðræðuhæf þar til sjúkraflutningamenn komu á vettvang.
Síðastliðna viku hefur lögreglan í Svíþjóð óskað eftir aðstoð almennings við að hafa uppi á konu sem var eftirlýst í tengslum við röð nýlegra glæpa á svæðinu. Í umfjöllun Aftonbladet segir að ekki sé útilokað að um sömu konu sé að ræða.