Stjórnvöld í Úkraínu segja að hersveitir þeirra séu búnar að endurheimta sjö þorp í gagnsókn sinni. Volódímír Selenskí, forseti Úkraínu, segir að hart sé barist en að aðgerðunum miði vel áfram. Svæðið sem hefur verið endurheimt er um 90 ferkílómetrar að sögn varnarmálaráðherra Úkraínu.
„Ég þakka okkar mönnum fyrir hvern einasta Úkraínufána sem er kominn á sinn réttmæta stað í þorpunum sem við höfum endurheimt.“
Emmanuel Macron Frakklandsforseti telur að gagnsóknin muni taka margar vikur ef ekki marga mánuði. „Við viljum að gagnsóknin skili eins miklum árangri og möguleiki er á. Þannig getum við hafið samningaviðræður við góðar aðstæður,“ sagði Macron í París á fundi sínum með Þýskalandskanslara Olaf Scholz og forseta Póllands Andrzej Duda.
Varnarmálaráðherra Úkraínu segir meðal annars að þorpin sem um ræðir séu Lobkóvó, Levadne og Novodarivka í Saporisíja-héraði þar sem stærsta kjarnorkuver Evrópu er hýst.
Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segist vona til þess að góð gagnsókn Úkraínumanna þvingi forseta Rússlands, Vladímír Pútín, að samningaborðinu.
Stjórnvöld í Rússlandi segja að hersveitir sínar hafi varist gagnsókninni hingað til.