Tvær konur hafa verið handteknar vegna gruns um að hafa unnið alvarlegar skemmdir á málverki listamannsins Claude Monet á Þjóðminjasafninu í Stokkhólmi seinnipartinn í dag. SVT greinir frá. Umhverfissinnar frá samtökunum Återställ våtmarker, eða Endurheimtum votlendi bera ábyrgð á verknaðinum.
Þær eru sagðar hafa límt sig fastar við hlífðargler málverksins og skilið eftir rauð handaför.
„Tveir einstaklingar köstuðu einhvers konar málningu á listaverk á sýningunni „Garðurinn“ eftir listamanninn Monet og límdu sig svo við rammann. Lögreglan var kölluð á svæðið og annast safngesti, auk þess sem tekin var skýrsla. Málverkið, sem er varið með gleri, er nú til skoðunar hjá safnvörðum til að kanna hvort einhverjar skemmdir hafi orðið“, segir Hanna Tottmar, blaðafulltrúi safnsins.
Blaðamannfulltrúi loftslagshreyfingarinnar Roxy Farhat staðfestir að loftlagshreyfingin beri ábyrgð á verknaðinum, en neitar því að skemmdir hafi orðið á málverkinu sjálfu.
„Þau vilja vekja athygli á því að loftslagskrísan sé líka heilsukrísa, og að hitatengdir sjúkdómar eru að verða stærra og stærra vandamál“, segir hún.
Spurð hvort að verið sé að beina reiðinni í vitlausa átt, og að margir séu í uppnámi vegna slíkra aðgerða segir Farhat, „Ég skil vel að fólk fari í uppnám, en ég skil ekki hvers vegna stjórnmálamenn eru ekki spurðir af hverju þeir séu vísvitandi að fylgja stefnu sem mun leiða til fleiri dauðsfalla, skorts á drykkjarvatni og minni uppskeru? Afleiðingar loftslagsbreytinga eru að drepa fólk.”
„Við fjarlægjum okkur að sjálfsögðu frá gjörðum þar sem hætta er á að list eða menningararfur verði skemmdur. Menningararfur hefur ríkt táknrænt gildi og það er óásættanlegt að ráðast á hann eða eyðileggja hann, óháð tilgangi þess“, segir Per Hedström, forstöðumaður Þjóðminjasafnsins.