Ný skýrsla Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna leiðir í ljós að 108,4 milljónir manna voru neyddar til þess að yfirgefa heimili sín vegna ofsókna, ofbeldis, mannréttindabrota og annars vanda árið 2022. Þetta er 19 milljóna manna fjölgun á milli ára.
Þá er greint frá því að 5,7 milljónir Úkraínumanna hafi flúið land en þar að auki 4,4 milljónir manna frá öðrum þjóðum gert það einnig. Sögulegur vöxtur í fjölda flóttafólks hafi orðið á milli ára en fjöldinn hafi stokkið úr 27,1 milljón manna í 35,3 milljónir.
Í skýrslunni sem um ræðir er greint frá því að innrás Rússa í Úkraínu hafi ýtt af stað hraðasta vexti landflótta sem sést hafi síðan á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. 11,6 milljónir Úkraínumanna eru sagðar á vergangi vegna stríðsins, 5,9 milljónir innan Úkraínu og 5,7 milljónir utan landsins.
Þar að auki komi 52% flóttafólks og hælisleitenda frá aðeins þremur löndum, 6,5 milljónir frá Sýrlandi, 5,7 milljónir frá Úkraínu og 5,7 milljónir frá Afganistan.