Um 25 þúsund rússneskir hermenn hafa fallið í Úkraínu síðan Rússar réðust inn í landið í fyrra. Rannsókn breska ríkisútvarpsins, BBC, leiddi þetta í ljós.
Þetta eru fjórum sinnum fleiri hermenn en rússnesk stjórnvöld hafa gefið upp.
BBC í Rússlandi og rússneska vefsíðan Mediazona rannsökuðu ljósmyndir af gröfum hermanna, færslur á samfélagsmiðlum og fréttir í Rússlandi og komust að þessari niðurstöðu.
Í upphafi innrásarinnar í Úkraínu féllu aðallega vel þjálfaðir atvinnuhermenn. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að núna falli aðallega eldri hermenn með litla þjálfun að baki.
Hermennirnir hafa margir hverjir komið úr fangelsum fyrir tilstuðlan málaliðahópsins Wagner.