Úkraínskar hersveitir gerðu árásir á tvö rússnesk héruð við landamæri Úkraínu snemma í morgun. Sjö manns særðust í árásinni, þar á meðal eitt barn.
Nokkur íbúðarhús í Belgorod-héraði urðu fyrir skemmdum. Allir hinir særðu hafa verið fluttir á sjúkrahús, að sögn Vyacheslav Gladkov, ríkisstjóra Belgorod.
Þá var gerð árás á tvö þorp í Kúrsk-héraði sem olli rafmagnsleysi og skemmdum á ökutækjum, en enginn særðist, að sögn Roman Starovoit ríkisstjóra.
Á Krímskaga, sem Rússar innlimuðu árið 2014, voru tveir drónar skotnir niður í nótt, að sögn Sergei Aksyonov ríkisstjóra.
Árásum á rússnesk svæði við landamæri Úkraínu og á Krímskaga hefur fjölgað undanfarið vegna gagnsóknar Úkraínumanna.
Aðstoðarvarnarmálaráðherra Úkraínu, Hanna Maliar, greindi frá því í morgun að úkraínskar hersveitir hefðu endurheimt þorpið Pyatykhatky á suðurvígstöðvunum.
Maliar sagði átta landsvæði hafa verið frelsuð frá því að gagnsókn hófst, eða 113 ferkílómetrar af landi.