„Er að verða skíthæll Evrópu“

Ekofisk-olíuvinnslusvæðið úti fyrir Stavanger árið 2010. Árið í fyrra var …
Ekofisk-olíuvinnslusvæðið úti fyrir Stavanger árið 2010. Árið í fyrra var metár í norskum útflutningi en sínum augum lítur hver silfrið. Ljósmynd/Wikipedia.org/BoH

Útflutn­ing­ur Norðmanna, vör­ur og þjón­usta, nam 3.100 millj­örðum norskra króna árið 2022, upp­hæð sem jafn­gild­ir tæp­lega 40.000 millj­örðum ís­lenskra króna og er næst­um tvö­föld­un út­flutn­ings lands­ins frá 2021.

Hryggj­ar­stykkið í þess­ari út­flutn­ings­sprengju er gas og sú gríðarlega eft­ir­spurn sem myndaðist á þeim vett­vangi í Evr­ópu eft­ir að Rúss­ar réðust inn í Úkraínu í fe­brú­ar í fyrra, en alþjóðleg­ar verðhækk­an­ir á fiski, áli og áburði hafa einnig haft sitt að segja.

Þar sem tæki­fær­in bíða

„Okk­ur vant­ar fleiri hag­kvæm út­flutn­ings­fyr­ir­tæki í öðrum grein­um,“ seg­ir Ole Erik Almlid, formaður viðskiptaráðs Nor­egs, Nær­ingsli­vets ho­vedorg­an­isa­sjon, í sam­tali við norska rík­is­út­varpið NRK, „norsk út­flutn­ings­fyr­ir­tæki berj­ast dag hvern við alþjóðlega sam­keppn­isaðila til að verða betri og af­kasta­meiri. Það ger­ir þeim kleift að fá nýj­ar hug­mynd­ir, starfa af aukn­um hygg­ind­um og færa fram­leiðsluna inn á þau svið þar sem tæki­fær­in bíða,“ seg­ir Almlid.

Þrátt fyr­ir alla þessa millj­arða og bjart­sýn­is­ræðu for­manns viðskiptaráðs er einn maður að minnsta kosti langt frá því að vera ánægður. Það er Hans K. Mjelva, dálka­höf­und­ur Björg­vinjarmiðils­ins Ber­gens Tidende.

Mjelva tel­ur Norðmenn eiga að veita öðrum Evr­ópu­ríkj­um af­slátt af gasi í stað þess að selja þeim það fullu verði og græða á tá og fingri. Þessa skoðun sína set­ur hann fram í pistli und­ir fyr­ir­sögn­inni „Nor­eg­ur er að verða skít­hæll Evr­ópu“, eða „Nor­eg er i ferd med å bli Europ­as drit­sekk“.

Verður hrækt á eft­ir Norðmönn­um?

„Nor­eg­ur á að veita Evr­ópu af­slátt af gasi áður en fólk fer að hrækja á eft­ir Norðmönn­um á götu í Berlín og Par­ís,“ skrif­ar Mjelva ill­ur og læt­ur enn frem­ur í ljós þá skoðun sína að úr því Norðmenn græði svo mjög á stríðinu í Úkraínu ættu þeir að láta mun meira af hendi rakna til hinn­ar stríðshrjáðu þjóðar en raun­in hef­ur verið.

Tore Myhre, talsmaður út­flutn­ings­ráðs Nor­egs, Nasjonalt ek­sportråd, seg­ir vont eft­ir­bragð af út­flutn­ingstöl­um síðasta árs. „[Þær] stafa einkum af hækkuðu verðlagi vegna stríðsins í Úkraínu. Það er bara verðið sem hef­ur hækkað, ekki við sem erum að fram­leiða meira,“ seg­ir Myhre og bend­ir á að Nor­eg­ur gangi fyr­ir olíu- og gas­vinnsl­unni, án þeirr­ar grein­ar væri landið varla með nokk­urn út­flutn­ing sam­an­borið við aðrar Evr­ópuþjóðir.

NRK

Grein Mjelva í BT

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert