Útflutningur Norðmanna, vörur og þjónusta, nam 3.100 milljörðum norskra króna árið 2022, upphæð sem jafngildir tæplega 40.000 milljörðum íslenskra króna og er næstum tvöföldun útflutnings landsins frá 2021.
Hryggjarstykkið í þessari útflutningssprengju er gas og sú gríðarlega eftirspurn sem myndaðist á þeim vettvangi í Evrópu eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar í fyrra, en alþjóðlegar verðhækkanir á fiski, áli og áburði hafa einnig haft sitt að segja.
„Okkur vantar fleiri hagkvæm útflutningsfyrirtæki í öðrum greinum,“ segir Ole Erik Almlid, formaður viðskiptaráðs Noregs, Næringslivets hovedorganisasjon, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, „norsk útflutningsfyrirtæki berjast dag hvern við alþjóðlega samkeppnisaðila til að verða betri og afkastameiri. Það gerir þeim kleift að fá nýjar hugmyndir, starfa af auknum hyggindum og færa framleiðsluna inn á þau svið þar sem tækifærin bíða,“ segir Almlid.
Þrátt fyrir alla þessa milljarða og bjartsýnisræðu formanns viðskiptaráðs er einn maður að minnsta kosti langt frá því að vera ánægður. Það er Hans K. Mjelva, dálkahöfundur Björgvinjarmiðilsins Bergens Tidende.
Mjelva telur Norðmenn eiga að veita öðrum Evrópuríkjum afslátt af gasi í stað þess að selja þeim það fullu verði og græða á tá og fingri. Þessa skoðun sína setur hann fram í pistli undir fyrirsögninni „Noregur er að verða skíthæll Evrópu“, eða „Noreg er i ferd med å bli Europas dritsekk“.
„Noregur á að veita Evrópu afslátt af gasi áður en fólk fer að hrækja á eftir Norðmönnum á götu í Berlín og París,“ skrifar Mjelva illur og lætur enn fremur í ljós þá skoðun sína að úr því Norðmenn græði svo mjög á stríðinu í Úkraínu ættu þeir að láta mun meira af hendi rakna til hinnar stríðshrjáðu þjóðar en raunin hefur verið.
Tore Myhre, talsmaður útflutningsráðs Noregs, Nasjonalt eksportråd, segir vont eftirbragð af útflutningstölum síðasta árs. „[Þær] stafa einkum af hækkuðu verðlagi vegna stríðsins í Úkraínu. Það er bara verðið sem hefur hækkað, ekki við sem erum að framleiða meira,“ segir Myhre og bendir á að Noregur gangi fyrir olíu- og gasvinnslunni, án þeirrar greinar væri landið varla með nokkurn útflutning samanborið við aðrar Evrópuþjóðir.