Hafa áhyggjur af andlegri og líkamlegri heilsu Bidens

Joe Biden myndi klára sitt annað kjörtímabil 86 ára gamall …
Joe Biden myndi klára sitt annað kjörtímabil 86 ára gamall ef hann sigrar á næsta ári. AFP/Saul Loeb

68% Bandaríkjamanna segjast hafa áhyggjur af andlegri og líkamlegri heilsu Joe Bidens Bandaríkjaforseta, skyldi hann starfa annað kjörtímabil. Þetta kemur fram í könnun sem fréttaveitan NBC lét gera fyrir sig í júní.

Biden er 80 ára gamall og ef hann sigrar forsetakosningarnar á næsta ári þá verður hann 86 ára þegar því kjörtímabili lýkur. Ítrekað hafa orðin verið að flækjast fyrir forsetanum á yfirstandandi kjörtímabili og hefur hann hrasað nokkrum sinnum sem hefur reynst góður pólitískur efniviður fyrir andstæðinga hans.

Í sömu könnun kemur fram að 55% Bandaríkjamanna hafa áhyggjur af andlegri og líkamlegri heilsu Donalds Trumps, skyldi hann sigra næstu kosningar og starfa það kjörtímabil. Trump er 77 ára og leiðir forval Repúblikana að svo stöddu samkvæmt könnunum.

Könnunin var gerð daganna 16.-20. júní meðal 1.000 skráðra kjósenda og eru skekkjumörk 3,1%

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert