Loka vegi að vindmyllugarði

Aðgerðasinnar á vegum Motvind Norge og Náttúruverndarsamtaka Þrændalaga hafa lokað …
Aðgerðasinnar á vegum Motvind Norge og Náttúruverndarsamtaka Þrændalaga hafa lokað veginum að Roan-vindmyllugarðinum og hyggjast knýja stjórnvöld til aðgerða í kjölfar dóms Hæstaréttar í nóvember 2021. Ljósmynd/Facebook-síða Motvind Norge

Aðgerðasinnar á vegum samtakanna Motvind Norge og Náttúruverndarsamtaka Þrændalaga lokuðu í morgun vegi sem liggur að Roan-vindmyllugarðinum á Fosen í Þrændalögum. Krefjast þeir þess að vindmyllurnar þar á svæðinu verði stöðvaðar og orkuvinnslu með þeim þar með hætt.

„Úr því þau stjórnvöld sem ábyrgðina bera stöðva ekki sjálf þennan ólöglega rekstur finnum við okkur knúin til að grípa til sjálftökuúrræða og stöðva þetta augljósa lögbrot,“ segir Jørund Nygård, formaður Motvind Norge, í fréttatilkynningu og vísar þar til dóms Hæstaréttar Noregs frá nóvember 2021.

Engin ákvörðun í málinu

Dæmdi Hæstiréttur þá að vindmyllurnar á Fosen brytu gegn mannréttindum samískra íbúa á svæðinu og hindruðu þá í að stunda hefðbundna menningu sína en þar er fyrst og fremst átt við hreindýrabúskap hinna samísku á svæðinu þar sem eru um 2.100 hreindýr. Vindmyllurnar eru á beitarsvæði dýranna og hafa haft mjög truflandi áhrif á þau.

Langt er um liðið síðan dómurinn féll en norsk stjórnvöld hafa þó ekki tekið neina ákvörðun í málinu. Hæstiréttur dæmdi nefnilega aðeins að brotið teldist gegn mannréttindum hreindýrabændanna – ekki að stöðva þyrfti vindmyllurnar eða taka þær niður.

Annar talsmaður Motvind Norge, Torbjørn Lindseth, sagði engu að síður við norska ríkisútvarpið NRK í gærkvöldi að hér væri dómur Hæstaréttar undir og honum væri ekki framfylgt. „Við ætlum okkur þess vegna að þrýsta á yfirvöld,“ sagði Lindseth í gær og bætti því við að á lokun vegarins væru engin tímamörk.

„Það sem við viljum ná fram með aðgerðinni er að [orku]framleiðslunni verði hætt. Það hefði átt að gerast daginn sem dómurinn féll,“ sagði Lindseth.

Mikilvægir samfélagsinnviðir

Stig Tore Laugen, upplýsingafulltrúi Aneo, fyrirtækisins sem rekur vindmyllurnar á Fosen, segir að vindmyllunum sé fjarstýrt og orkuframleiðslan gangi því sinn vanagang. Játar hann þó að lokun vegarins hafi óþægindi í för með sér.

„Vindorkuverið er hluti mikilvægra samfélagsinnviða sem við verðum að hafa aðgang að öllum stundum. Það höfum við ekki nú vegna lokunarinnar með þeim afleiðingum sem það kann að hafa,“ segir Laugen.

NRK

Nettavisen

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert