Harvard sakaður um að hygla hvítum nemendum

Þrýstihópar hafa biðlað til bandarískra stjórnvalda að þau stöðvi hinar …
Þrýstihópar hafa biðlað til bandarískra stjórnvalda að þau stöðvi hinar svokölluðu „arfleifðarumsóknir“ (e. legacy admissions) til Ivy League háskólanna. Ljósmynd/Eros Hoagland

Óhagnaðardrifnu samtökin Lawyers for Civil Rights (LCR), sem hafa aðsetur í Boston, hafa lagt fram kvörtun til menntamálaráðuneytis Bandaríkjanna þar sem því er mótmælt að Harvard „veiti hvítum nemendum sérstakan forgang í umsóknarferlinu“ vegna tengsla fjölskyldu þeirra við skólann eða starfsfólk hans. 

BBC greinir frá.

Þrýstihópar hafa biðlað til bandarískra stjórnvalda að þau banni hinar svokölluðu „arfleifðarumsóknir“ (e. legacy admissions) en tíðkast hefur að Ivy League háskólarnir taki umsækjendur með slíkar umsóknir fram yfir aðra umsækjendur.

Forgangur nemenda með tengsl við toppháskólana í Bandaríkjunum hefur lengi verið talið fríðindi sem aðallega hinir hvítu og ríku njóta góðs af.

Kynþáttur megi ekki vera ráðandi þáttur 

Kvörtunin barst í dag, einungis nokkrum dögum eftir að tilkynnt var um úrskurð hæstaréttar Bandaríkjanna þess efnis að háskólum væri ekki lengur heimilt að taka kynþátt umsækjanda til greina sem ráðandi þátt við mat á umsóknum um skólavist.

Sex atkvæði gegn þremur voru greidd í hæstarétti til að fella úr gildi jákvæða mismunun sem hefur verið við lýði í áraraðir. Þykir þetta tímamótaákvörðun, en jákvæð mismunum hefur lengi verið álitin mikilvægt tæki til þess að stuðla að fjölbreytileika í bandarískum háskólum.

Stjórnendur skólans neituðu að tjá sig um kvörtun samtakanna LCR við BBC en vísuðu til svars síns við úrskurði hæstaréttar í síðustu viku. Í svarinu segist háskólinn munu halda áfram að bjóða velkomna „einstaklinga af ólíkum bakgrunni, með ólík sjónarmið og lífsreynslu“.

Hafa bannað umsóknirnar

Arfleifðarumsóknir hafa þegar verið bannaðar við háskólann í Kaliforníu og opinbera háskóla Colorado-fylkis. 

Fjórðungur nýrra nemenda við toppháskóla í Bandaríkjunum hafa fengið skólavist sína tryggða í gegnum slíkar umsóknir og þannig notið góðs af fjölskyldutengslum sínum.

Stuðningsmenn núverandi fyrirkomulags halda því fram að arfleiðarumsóknirnar styrki háskólasamfélagið og auðveldi háskólum að verða sér úti um styrktaraðila.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert