Harvard sakaður um að hygla hvítum nemendum

Þrýstihópar hafa biðlað til bandarískra stjórnvalda að þau stöðvi hinar …
Þrýstihópar hafa biðlað til bandarískra stjórnvalda að þau stöðvi hinar svokölluðu „arfleifðarumsóknir“ (e. legacy admissions) til Ivy League háskólanna. Ljósmynd/Eros Hoagland

Óhagnaðardrifnu sam­tök­in Lawyers for Civil Rights (LCR), sem hafa aðset­ur í Bost­on, hafa lagt fram kvört­un til mennta­málaráðuneyt­is Banda­ríkj­anna þar sem því er mót­mælt að Har­vard „veiti hvít­um nem­end­um sér­stak­an for­gang í um­sókn­ar­ferl­inu“ vegna tengsla fjöl­skyldu þeirra við skól­ann eða starfs­fólk hans. 

BBC grein­ir frá.

Þrýsti­hóp­ar hafa biðlað til banda­rískra stjórn­valda að þau banni hinar svo­kölluðu „arf­leifðar­um­sókn­ir“ (e. legacy adm­issi­ons) en tíðkast hef­ur að Ivy League há­skól­arn­ir taki um­sækj­end­ur með slík­ar um­sókn­ir fram yfir aðra um­sækj­end­ur.

For­gang­ur nem­enda með tengsl við topp­há­skól­ana í Banda­ríkj­un­um hef­ur lengi verið talið fríðindi sem aðallega hinir hvítu og ríku njóta góðs af.

Kynþátt­ur megi ekki vera ráðandi þátt­ur 

Kvört­un­in barst í dag, ein­ung­is nokkr­um dög­um eft­ir að til­kynnt var um úr­sk­urð hæsta­rétt­ar Banda­ríkj­anna þess efn­is að há­skól­um væri ekki leng­ur heim­ilt að taka kynþátt um­sækj­anda til greina sem ráðandi þátt við mat á um­sókn­um um skóla­vist.

Sex at­kvæði gegn þrem­ur voru greidd í hæsta­rétti til að fella úr gildi já­kvæða mis­mun­un sem hef­ur verið við lýði í ár­araðir. Þykir þetta tíma­móta­ákvörðun, en já­kvæð mis­mun­um hef­ur lengi verið álit­in mik­il­vægt tæki til þess að stuðla að fjöl­breyti­leika í banda­rísk­um há­skól­um.

Stjórn­end­ur skól­ans neituðu að tjá sig um kvört­un sam­tak­anna LCR við BBC en vísuðu til svars síns við úr­sk­urði hæsta­rétt­ar í síðustu viku. Í svar­inu seg­ist há­skól­inn munu halda áfram að bjóða vel­komna „ein­stak­linga af ólík­um bak­grunni, með ólík sjón­ar­mið og lífs­reynslu“.

Hafa bannað um­sókn­irn­ar

Arf­leifðar­um­sókn­ir hafa þegar verið bannaðar við há­skól­ann í Kali­forn­íu og op­in­bera há­skóla Col­orado-fylk­is. 

Fjórðung­ur nýrra nem­enda við topp­há­skóla í Banda­ríkj­un­um hafa fengið skóla­vist sína tryggða í gegn­um slík­ar um­sókn­ir og þannig notið góðs af fjöl­skyldu­tengsl­um sín­um.

Stuðnings­menn nú­ver­andi fyr­ir­komu­lags halda því fram að arf­leiðar­um­sókn­irn­ar styrki há­skóla­sam­fé­lagið og auðveldi há­skól­um að verða sér úti um styrkt­araðila.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert