Greta Thunberg ákærð vegna loftslagsmótmæla

Greta Thunberg fjarlægð með lögregluvaldi á mótmælunum.
Greta Thunberg fjarlægð með lögregluvaldi á mótmælunum. AFP/Johan Nilsson

Sænski loftslagsaðgerðarsinninn Greta Thunberg hefur verið ákærð fyrir að óhlýðnast lögreglunni á loftslagsmótmælum í Malmö í júní. Fær hún líklega sekt fyrir atferli sitt. 

Ríkissaksóknari gaf út ákæru á hendur Thunberg í kjölfar þess að hún „neitaði að hlýða fyrirmælum lögreglu um að yfirgefa staðinn“ við mótmæli í suðurhluta Malmö þann 19. júní.

Mótmælin sem Thunberg tók þátt í voru á vegum umhverfisverndarsamtakanna „Ta tilbaka framtiden“ (Endurheimtum framtíðina). Var ætlun mótmælenda að loka inn- og útgönguleið að höfninni í Malmö og mótmæla þannig notkun jarðefnaeldsneytis. 

Vilja endurheimta framtíðina

„Við kjósum að standa ekki hjá heldur nýta afl okkar til þess að loka innviðum sem nýta jarðefnaeldsneyti. Við krefjumst þess að fá að eiga framtíð,“ sagði Thunberg í færslu á Instagram. 

Í yfirlýsingu sem samtökin gáfu út í dag segir: „Í kjölfar þess að við hindruðum starfsemi sem er að brenna framtíð okkar höfum við verið ákærð fyrir lögbrot. 

Samtímis og við fáum á okkur ákæruna á hinn raunverulegi glæpur sér stað fyrir innan dyrnar sem við stóðum fyrir“.

Fær líklega sekt

Thunberg á yfir höfði sér allt að sex mánaða fangelsisdóm vegna ákærunnar en Charlotte Ottesen saksóknari sagði í samtali við sænska dagblaðið Sydsvenska að Thunberg fái líklega einungis sekt.

Málflutningur fyrir héraðsdómi Malmö hefur verið áætlaður í lok júlí, að sögn dagblaðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka