Varar við aðgerðum Rússa í kringum kjarnorkuver

Ótti vegna öryggisáhættu í kringum Zaporizhzhia kjarnorkuverið hefur verið viðvarandi …
Ótti vegna öryggisáhættu í kringum Zaporizhzhia kjarnorkuverið hefur verið viðvarandi frá því að innrás Rússlands í Úkraínu hófst. AFP

Volodomír Selenskí, forseti Úkraínu, varaði Emmanual Macron frakklandsforseta við aðgerðum Rússa í kringum kjarnorkuverið Zaporizhzhia í yfirlýsingu í dag. Sagði Zelensky að Rússar væru að undirbúa „hættulegar ögrunaraðgerðir“ við kjarnorkuverið, sem hefur verið hertekið af þeim.

Stærsta kjarnorkuver í Evrópu

Sendi Selenskí yfirlýsinguna frá sér í kjölfar þess að ásakanir gengu á víxl á milli Kænugarðs og Moskvu um að verið væri að undirbúa aðgerðir við kjarnorkuverið, sem er það stærsta í Evrópu.

Ótti vegna öryggisáhættu í kringum kjarnorkuverið hefur verið viðvarandi frá því að innrás Rússlands í Úkraínu hófst.

Varaði frakklandsforseta við

„Ég varaði Emmanuel Macron við því að hernámslið Rússa væru að undirbúa hættulegar ögrunaraðgerðir við Zaporizhzhia kjarnorkuverið,“ sagði Selenskí í yfirlýsingunni eftir símtal við Macron.

„Við samþykktum að viðhafa hæstu öryggisráðstafanir í samstarfi við IAEA (International Atomic Energy Agency,“ bætti hann við.

Vara við villandi upplýsingum frá Rússum

Áður hafði Úkraínuher varað við „mögulegum undirbúningi ögrunaraðgerða á landsvæðinu í kringum Zaporizhzhia kjarnorkuverið sem myndu eiga sér stað í náinni framtíð“.

Staðhæfði Úkraínuher að „utanáliggjandi hlutum, sem svipaði til sprengibúnaðar, hefði verið komið fyrir utan á þaki yfir þriðja og fjórða kjarnakljúf kjarnorkuversins“.

„Sprenging þessara hluta ætti ekki að skaða aflvélarnar kjarnorkuversins, en gæti skotið sprengikúlum yfir til Úkraínu,“ sagði í yfirlýsingu Úkraínuhers „en Rússar myndu gefa villandi upplýsingar um þetta“.

Rússar og Úkraínumenn hafa reglulega sakað hvor aðra um að hafa ögrað öryggi kjarnorkuversins frá því að stríðið hófst í febrúar 2022. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert