„Mamma seldi upp á mig“

Maria á sér merkilega, en ekki mjög fallega, sögu. Hún …
Maria á sér merkilega, en ekki mjög fallega, sögu. Hún ræddi við mbl.is í San Francisco í gær og sagði af því þegar móðir hennar seldi vinum sínum hana í vændi þegar hana skorti fé fyrir fíkniefnum. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ég get ekki sagt að ég hafi átt gott líf hingað til, báðir foreldrar mínir eru fíklar og þegar þau áttu ekki peninga fyrir heróíni og kannabis seldi mamma vinum sínum aðgang að mér fyrir tuttugu dollara. Hún seldi upp á mig. Ég var tólf ára, skilurðu það!?“ Frá þessu greinir Maria N., heimilislaus ung kona í San Francisco, í samtali við mbl.is í gær. 

„Vinir foreldra minna hömuðust á mér og fljótlega lokaði ég mig bara inni í einhverri skel, ég fór bara út úr þessu lífi og það hjálpaði mér aðeins,“ segir Maria enn fremur. Í tenglinum hér að neðan má lesa fyrri viðtöl mbl.is við heimilislaust fólk þar í borg haustið 2019.

Maria er frá Iowa en hraktist þaðan 19 ára gömul eftir að hafa neyðst til að stunda vændi til að ala önn fyrir neyslu foreldra sinna.

En hvað gerðist þá?

„Ég kom hingað til San Francisco, átti engan pening, tók bara rútu hingað og bý núna hérna á götunni, ég held mig oft hérna kringum Mission Street,“ segir Maria þar sem hún situr á dyraþrepi með allar eigur sínar í örsmáum bakpoka. „Mamma mín er mesta ógeð sem ég hef kynnst, ég er heimilislaus vegna hennar. Samt hef ég í raun fyrirgefið henni. Ef þú eignast börn, áttu þá ekki að bera ábyrgð á þeim?“ spyr Maria og blaðamaður getur ekki annað en verið sammála henni.

Lífið hrundi til grunna

„Ég heiti Nick og þetta byrjaði hjá mér þegar ég lenti í slysi og varð háður Oxycontin-töflum,“ segir næsti viðmælandi mbl.is, Nicholas M. sem liggur í svefnpokanum sínum við Market Street og var strax tilbúinn í viðtal þegar mbl.is falaðist eftir því. „Hérna í Bandaríkjunum færðu engan séns, kerfið hérna er mjög strangt. Ég framdi vopnað rán 2016 og sat inni fyrir það og síðan hef ég ekki borið mitt barr,“ segir Nicholas.

Nicholas, vel mæltur jákvæður ungur maður í San Francisco, tjáir …
Nicholas, vel mæltur jákvæður ungur maður í San Francisco, tjáir mbl.is að líf hans hafi hrunið til grunna er hann varð háður Oxyciontin-töflum. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Svo kom ég út úr fangelsi og þá var fyrrverandi eiginkona mín bara komin með annan mann og líf mitt hrundi bara til grunna,“ segir Nicholas og lítur sorgmæddum augum í augu blaðamanns.

„Þegar þú byrjar að umgangast fíkla áttu þér enga von,“ segir Nicholas, „þú byrjar í harðri neyslu og þú ferð að sprauta þig og þegar þú ferð að sprauta þig er þetta bara búið. Kerfið lítur á þig sem úrhrak, löggunni er sama um þig, ekki halda að þú getir bara hringt í 911 og löggan komi að bjarga þér. Löggan kemur aldrei, þú ert bara fíkill og aumingi og þeim er skítsama þótt þú drepist, dræpi einhver mig núna yrði málið aldrei rannsakað,“ segir Nicholas brúnaþungur.

„Vissulega veitir San Francisco heimilislausu fólki góða þjónustu en ég er frá öðru ríki svo ég lendi aftast í biðröðinni. Ég á þrjá syni og nýja kærastan mín á tvö börn. Mig fýsir í það eitt að ná mér upp úr þessu ógeðslega lífi og ég lofa þér að það mun gerast,“ segir Nicholas að lokum við blaðamann og vefur sig aftur inn í bakpokann sinn.

Hata litað fólk

„Ég heiti Patricia, ég missti heimilið mitt þegar ég var 19 ára, ég er frá Mississippi,“ segir téð Patricia og leynir suðurríkjahreimurinn sér ekki. Patricia situr í svefnpokanum sínum við Market Street með fátæklegar eigur sínar. Baðst hún undan myndatöku svo mynd af Patriciu fylgir ekki þessu viðtali.

Thomas segir mbl.is frá því að þegar umgangur við fíkla …
Thomas segir mbl.is frá því að þegar umgangur við fíkla byrji sé vonin úti. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ég er svört og hvítir Bandaríkjamenn hata litað fólk, við erum bara rusl í þeirra augum,“ segir Patricia og tekur í hönd blaðamanns til að undirstrika réttlæti sem er verra en þeirra ranglæti svo vitnað sé í Nóbelsskáldið.

„Ég kaus mér þetta hlutskipti ekki sjálf en foreldrar mínir, sem voru bæði sprautufíklar, voru dæmd óhæf til að vera forráðamenn barns og ég var bara tekin af þeim,“ segir Patricia. „Þetta er líf sem enginn óskar sér, ég hata að þurfa að sofa hérna á götunni, enginn á að þurfa að lifa við slíkt. Ég er frá Michigan og þar er nánast enginn heimilislaus miðað við fjöldann hér,“ heldur hún áfram og tárin eru tekin að streyma niður kinnar Patriciu.

„En ég mun plumma mig, ég ætla að koma mér út úr þessu ömurlega lífi á götunni,“ segir Patricia og lítur brúnum augum sínum í augu blaðamanns. Allir eiga sér drauma. Sumir rætast, aðrir ekki.

Foreldrar mínir hentu mér bara út

Næstsíðasti viðmælandi mbl.is í kvöld er Thomas D. Hvernig stóð á því að hann varð heimilislaus?

„Ég var staðinn að því að selja fíkniefni heima og foreldrar mínir hentu mér bara út. Mamma klikkaðist bara og sagði mér að hún vildi ekki sjá mig aftur. Þetta var fyrir fimm árum og ég hef verið heimilislaus síðan, ég er fæddur 1994,“ segir Thomas.

Telur hann San Francisco sinna heimilislausum vel?

„Já, við fáum góða þjónustu hérna þannig séð en enginn dylur fyrirlitningu sína í okkar garð, við erum bara dópistar og aumingjar,“ segir Thomas sem er frá Indianapolis, „ef þú ert að nota fíkniefni er svo auðvelt að skapa fordóma, allir hata þig. Ég er búinn að vera að nota fentanyl og kristal [metamfetamín] og þá er ég bara  kominn út úr samfélaginu,“ segir Tomas sem áður var liðtækur gítarleikari.

Chris R. er engan veginn bitur og sættir sig vel …
Chris R. er engan veginn bitur og sættir sig vel við hlutskipti sitt. „Ég kom mér í þetta sjálfur,“ segir hann við blaðamann. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ég er núna að reyna að fjármagna líf mitt með gítarleik en um leið þarf ég að standa undir neyslu minni sem er rándýr. Ég byrjaði að nota kókaín þegar ég var 21 árs, svo var það mollý [exstacy] og heróín. Þú vilt alltaf komast lengra, þú vilt alltaf sjá í hve mikla vímu þú getur komist. Þannig er líf fíkilsins, þú færð aldrei nóg,“ segir Thomas og vefur svefnpokanum sínum þéttar að sér í kvöldkulinu í San Francisco.

Allt fór til helvítis

Síðasti viðmælandi mbl.is í kvöld er Chris R. frá Santa Cruz. „Ég fór svo sem ekki dæmigerðu leiðina inn í þennan heim, var bara að reykja kannabis, en svo ákváðum við vinahópurinn að kaupa og flytja inn 250 kíló af kókaíni frá Mexíkó og þá fór allt til helvítis,“ segir Chris frá. „Þeir fengu þunga dóma en ég slapp með skilorð. Fjölskyldan mín var samt ekki ánægð með það, hér eru samt allir að flytja inn kók frá Mexíkó,“ segir Chris og glottir.

„En þetta spurðist alla vega út, ég missti vinnuna og þá var flaskan einhvern veginn síðasta vígið, ég þurfti bara að losna við kvíðann, ég hataði kvíðann, að vakna edrú á morgnana var viðbjóður, ég varð bara að koma mér í vímu – þó ekki væri nema til að losna við kvíðann,“ segir Chris og tekur fast í hönd blaðamanns.

„Ég hef samt oft verið edrú lengi en ég er ánægður með San Francisco, hér fær maður flest en veturnir hérna geta verið erfiðir. Mig langar bara til að komast á fætur aftur, þetta er ekkert líf að vera hérna á götunni, ég get alveg sagt þér það,“ segir Chris R. af sannfæringarkrafti, síðasti viðmælandi mbl.is úr hópi heimilislauss fólks í San Francisco sem þó tekur hlutskipti sínu vel og er þakklátt fyrir að eiga sér enn líf þótt það fari fram á næsta dyraþrepi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert