Engin NATO-aðild meðan stríð geisar

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna á blaðamannafundi í Helsinki í Finnlandi …
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna á blaðamannafundi í Helsinki í Finnlandi í dag. AFP/Alessandro Rampazzo

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, segir að Úkraína muni einn daginn verða aðildarríki Atlantshafsbandalagsins (NATO), en að það geti ekki gerst á meðan stríð Rússa í Úkraínu stendur yfir.

„Þetta snýst ekki um hvort þeir ættu að fá aðild eða ekki. Þetta snýst um hvenær þeir fá aðild, og þeir munu fá aðild að NATO,“ sagði Biden á blaðamannafundi í Helsinki í Finnlandi í dag, þar sem leiðtogar Norðurlandanna og Biden funduðu dag.

Þá sagði hann Vladimír Pútín Rússlandsforseta „þegar hafa tapað stríðinu“ í Úkraínu, þar sem Rússum skorti fjármagn.

„Það er enginn möguleiki á að hann vinni stríðið í Úkraínu.“

Prigósjín skuli vera varkár

Biden á von á því að gagnsókn Úkraínumanna muni leiða til samkomulags við Rússa um að binda enda á stríðið.

„Von mín og vænting er sú að Úkraína nái verulegum framförum í sókn sinni og að það leiði til samkomulags á einhverjum tímapunkti.“

Þá sagði hann að Jevgení Prigósjín, stofnandi Wagner-málaliðahópsins, ætti að vara sig á því að eitrað verði fyrir honum eftir misheppnaða uppreisn Wagner-hópsins í Rússlandi.

„Guð einn veit hvað hann er líklegur til að gera. Við erum ekki einu sinni viss um hvar hann er og hvers konar samband hann hefur við aðra. Ef ég væri hann þá myndi ég passa mig á því hvað ég borðaði. Ég myndi hafa augun á matseðlinum mínum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert