Slökkviliðið í hinum bresku West Midlands hefur sent frá sér myndskeið af því þegar rafhlaða rafhjóls springur í hleðslu í Hampshire en eigandi myndskeiðsins heimilaði dreifingu þess öðrum til viðvörunar.
Tekur slökkviliðið fram að hér gildi einu hvort um sé að ræða rafhlöðu fyrir rafhjól, rafhlaupahjól, farsíma eða önnur tæki sem nota endurhlaðanlegar rafhlöður, slíkar rafhlöður skuli ávallt hlaða þannig að fyllsta öryggis sé gætt og leiðbeiningum framleiðanda fylgt í hvívetna.
Má þar til dæmis nefna að varað hefur verið sérstaklega við því að fólk skilji tæki eftir í hleðslu þegar það er að heiman eða sofandi, staðsetning þeirra skuli aldrei vera þannig að eldur frá þeim hindri flóttaleiðir og ávallt skuli hafa í huga að hætta hleðslu þegar tækin eru fullhlaðin.
Í því tilfelli sem myndskeiðið sýnir réð slökkvilið niðurlögum eldsins á hálfri klukkustund.