Hitinn þyngir heilbrigðiskerfum

Hitamælir á apóteki í Nimes í Suður-Frakklandi sýnir 36 gráður …
Hitamælir á apóteki í Nimes í Suður-Frakklandi sýnir 36 gráður en hitastig hefur þó farið mun ofar en það í álfunni síðustu daga og yfir 50 gráður í Kína. AFP/Sylvain Thomas

Hitabylgjan á norðurhveli jarðar hefur í för með sér aukið álag á heilbrigðiskerfi þeirra landa sem hún nær til en þeir sem veikir eru fyrir verða verst fyrir barðinu á hitanum. Frá þessu greinir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO í dag og segir mikinn hita oft ýta undir einkenni eða kvilla sem fyrir eru.

Einkum hafa talsmenn WHO áhyggjur af hjartasjúkdómum, sykursýki og astma en milljónir íbúa þriggja heimsálfa hafa í dag mátt þola hitastig sem telst hættulegt heilsu margra.

Maður leitar skjóls fyrir hitanum í húsasundi í Peking í …
Maður leitar skjóls fyrir hitanum í húsasundi í Peking í Kína í dag. AFP/Greg Baker

„Gríðarlegur hiti tekur mestan toll af þeim sem síst þola, svo sem eldra fólki, ungbörnum, börnum, fátækum og heimilislausum,“ sagði Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstöðumaður WHO, á blaðamannafundi í dag og bætti því við að ástandið skapaði mikið álag á heilbrigðiskerfið.

Komi sér upp neyðaráætlunum

WHO hefur, að sögn Ghebreyesus, ásamt Alþjóðaveðurfræðistofnuninni WMO unnið að því að þróa aðgerðaáætlanir sem ætlað er að draga úr neikvæðum áhrifum hitans háa á heilsu almennings.

Maria Neira, forstöðumaður lýðheilsu- og umhverfismála hjá WHO, kvað áhyggjur stofnunarinnar einkum hverfast um óléttar konur auk framangreindra hópa. Stjórnendur heilbrigðismála í hverju landi þyrftu að ná til þeirra sem væru í hættu og sjúkrahús að koma sér upp neyðaráætlunum.

Byggingarverkamaður drekkur vatn í hitanum í Nimes í Suður-Frakklandi.
Byggingarverkamaður drekkur vatn í hitanum í Nimes í Suður-Frakklandi. AFP/Sylvain Thomas

Þá þyrfti að koma þeim boðum út til almennings að fólk stundaði ekki íþróttir yfir heitasta tíma dagsins heldur leitaði í svalari svæði innandyra, liti eftir þeim sem viðkvæmir væru og væri meðvitað um sólsting og örmögnun vegna hita.

Frá WMO bárust enn fremur þau varnaðarorð að hátt hitastig um nætur væri ekki síður varasamt þar sem mannslíkaminn fengi þá ekki færi á að jafna sig eftir hita dagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert