Allt stefnir í að þessi júlímánuður verði heitasti mánuður frá upphafi mælinga á jörðinni. Vísindamenn segja nú útlit fyrir að þetta sé bara byrjunin á heitum kafla í jarðsögunni.
New York Times greinir frá.
Hitabylgja hefur geisað í þremur heimsálfum í sumar, Norður-Ameríku, Evrópu og Asíu.
Síðasti júnímánuður var heitasti júnímánuður frá upphafi mælinga árið 1850 og 6. júlí síðastliðinn var heitasti dagur frá upphafi mælinga.
Líkurnar aukast nú mjög á því að árið 2023 verði heitasta ár, og slái þar með hitamet sem slegið var síðast árið 2016. Átta hlýjustu ár frá upphafi mælinga eru síðastliðin átta ár.
„Þetta öfgakennda veður sem hefur haft áhrif á milljónir manna í júlí er raunveruleiki loftslagsbreytinga og aðeins forsmekkur af því sem koma skal,“ segir Petteri Taalas, framkvæmdastjóra Alþjóðaveðurstofnunarinnar, í tilkynningu.
„Við höfum aldrei þurft jafn mikið á því að halda að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda.“
Jörðin er komin inn í skeið þar sem mikil hlýindi munu einkenna veðurfarið. Vísindamenn rekja ástæðurnar bæði til hnattrænnar hlýnunar og El Niño, en telja þó möguleika á að fleira hafi áhrif.
Vísindamenn sem rannsakað hafa hitabylgjur í suðvesturríkjum Bandaríkjunum, norðurhluta Mexíkó og suðurhluta Evrópu segja að svo mikil hlýindi hefðu aldrei getað orðið nema með aðkomu mannkynsins.
Það þurfi þó að rannsaka aðdraganda hlýindanna á jörðinni til þess að skilja hvað olli þeim.