Umhverfisráðherrar G20-þjóðanna komust ekki að samkomulagi um hvernig megi ráða bót á loftslagsmálum. Loftslagsváin hefur verið áberandi í umræðunni vegna veðurfars sem vísindamenn segja óneitanlega tengjast losun gróðurhúsalofttegunda.
Fundurinn var haldinn í Chennai á Indlandi í dag, en ekkert nýtt kom fram varðandi lykilatriði fundarins. Meðal annars tókst ekki að komast að samkomulagi um þreföldun á endurnýtanlegri orku niður á heimsvísu.
Franski umhverfisráðherrann Christophe Bechu kvaðst afar vonsvikinn yfir niðurstöðum fundarins.
„Okkur tekst ekki að ná samkomulagi um að auka verulega endurnýjanlega orku, við getum ekki náð samkomulagi um að hætta eða stigminnka jarðefnaeldsneyti, sérstaklega hvað varðar kol,“ sagði Bechu.
„Hitamet eru slegin, hamfarir og gróðureldar geisa og við getum ekki komist að samkomulagi varðandi það að minnka losun fyrir 2025.“
Bhupender Yadav, ráðherra loftslagsbreytinga á Indlandi, sem stýrði fundinum, viðurkenndi að ekki hefðu allir verið sammála um orkuframleiðslu og loftslagsmarkmið.
Niðurstöður fundarins þykja mikil vonbrigði, en Sádi-Arabía og Rússland eru sögð eiga stóran þátt í að hamla framfarir á fundinum. Óttast er um áhrif mótvægisaðgerða við loftslagsváinni á hagkerfi landa sem reiða sig á olíuiðnaðinn.
Aðgerðasinnar um loftslagsbreytingar hafa lýst ónægju sinni um skort á framförum á fundinum og segja það óforsvaranlegt að ráðherrarnir geti ekki komið sér saman um aðgerðaáætlun þegar óbærilegar hitabylgjur, flóð og stormviðri geisa um heiminn.