Kristersson sýnir klærnar

Ulf Kristersson forsætisráðherra (t.v.) og Gunnar Strömmer dómsmálaráðherra hyggjast skera …
Ulf Kristersson forsætisráðherra (t.v.) og Gunnar Strömmer dómsmálaráðherra hyggjast skera upp herör gegn skálmöldinni í Svíþjóð þar sem Kóranbrennur við mótmæli hafa undanfarið hleypt illu blóði í stjórnvöld ríkja í Mið-Austurlöndum og stóraukið hættuna á hryðjuverkum að áliti öryggislögreglu og leyniþjónustu. AFP/Caisa Rasmussen

Svíar hyggjast gera mikla bragarbót á öryggiseftirliti sínu við innri landamærin það er eigin landamæri, ekki Schengen, sem að sögn Ulf Kristerssons forsætisráðherra er svar sænskra stjórnvalda við umdeildum Kóranbrennum við ýmis mótmæli síðustu misseri en brennur þessar lögðu hvorir tveggju, stjórnsýsludómstóll og áfrýjunardómstóll, blessun sína yfir á vordögum eftir að mótmælendur báru synjun lögreglu undir þá.

Reiknað er með ákvörðun sænsku stjórnarinnar um málið á fimmtudaginn og fái tillagan meðbyr mun fólki með takmörkuð tengsl við landið, sem talið er að gangi misgott til ætlunar, einfaldlega ekki verða hleypt inn fyrir landamærin að sögn ráðherra.

Á blaðamannafundi í dag benti Gunnar Strömmer dómsmálaráðherra á nýlega samþykkt lög sem tóku gildi í dag.

Ógn við öryggi lands og þjóðar

Veita lögin lögreglu víðtækari heimildir til líkamsleitar á fólki auk þess sem henni er gert kleift að skoða flutningsgögn á borð við farmskrár flutningabíla mun ítarlegar auk allra gagna er snúa að persónu ferðalanga eða farmflytjenda. Í maí ákvað sænska stjórnin að taka upp landamæraeftirlit við innri landamærin svo gerlegar mætti fylgjast með hugsanlegum brotamönnum sem hefðu í för með sér ógn við öryggi lands og þjóðar. Stendur það eftirlit fram til nóvembermánaðar eins og staðan er nú.

Eins og Danir hafa Svíar ákveðið að stemma stigu við Kóranbrennum sem að mati öryggislögreglu og leyniþjónusta landanna gera ekki annað en að auka hættuna á hryðjuverkaárásum.

Geti lært af Dönum

„Eins og staðan er nú liggjum við vel við höggi gagnvart þeim sem hyggjast skaða öryggishagsmuni okkar,“ sagði dómsmálaráðherra á blaðamannafundinum. Lögregla ræði við þá flóttamenn sem til landsins leiti til að sækja um hæli og gildi eftir atvikum minni öryggistengdar kröfur um þá.

Kristersson forsætisráðherra ræddi einnig samband sænskra ráðherra við önnur ríki og leyniþjónustur þeirra og lauk lofsorði á samtal sitt við dönsk stjórnvöld um helgina um málið.

„Við glímum við fjölda vandamála sem tengjast þessum væringum [...] og við getum lært heilmikið af Dönum,“ sagði ráðherra.

SVT

Hufvudstadsbladet

Expressen

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert