Hafna „neitunarvaldi ofstopamanna“

Stjórnarandstaðan telur að Lars Løkke Rasmussen utanríkisráðherra, fyrir miðju, eigi …
Stjórnarandstaðan telur að Lars Løkke Rasmussen utanríkisráðherra, fyrir miðju, eigi að tjá múslimaríkjum að dönsk stjórnvöld standi ekki fyrir Kóranbrennum, það geri einstaklingar. AFP/Mads Claus Rasmussen

Danska stjórnarandstaðan fellst ekki á það með ríkisstjórninni að rétt sé að banna að Kóraninn, helgirit múslima, sé brenndur við mótmæli og aðrar samkomur þar í landi og hafa nú sjö stjórnmálaflokkar á danska þinginu sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu með þeim skilaboðum að tjáningarfrelsið skuli vega þyngra en trúarkreddur.

Telja flokkarnir „neitunarvald ofstopamanna“ ekki eiga að skáka lýðræðinu og kveðast harma þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar, sem tilkynnt var á sunnudaginn, að hún hyggist banna að Kóraninn – og önnur trúarrit – brenni á mótmælasamkomum og við aðrar uppákomur.

„Von okkar er að við getum sýnt stjórninni fram á að hún er ein á báti með þá skoðun sína að við eigum að takmarka rétt okkar til frelsis af tillitssemi við trúarkreddur,“ segir Pernille Vermund, leiðtogi Nýja borgaraflokksins, við danska ríkisútvarpið DR.

Telur hún málið ekki snúast um hvort kveikt sé í eintaki af Kóraninum heldur snúist það um grundvallarréttindi.

Þeir eiga rétt á því

Hart hefur verið tekist á um réttmæti Kóranbrenna í Danaveldi, á mánudaginn funduðu fulltrúar 57 múslimaríkja og fordæmdu brennur trúarrits síns. Ályktuðu þeir að hvert ríki fyrir sig skyldi ákveða hvaða afstaða yrði tekin til Kóranbrenna.

Samtals 72 þingmenn á danska þinginu standa á bak við yfirlýsingu flokkanna sjö. „Það sem Lars Løkke [Rasmussen utanríkisráðherra] ætti að segja við þessi ríki er að það sé ekki danska ríkisstjórnin, danska þingið eða Danmörk sem þjóð sem stendur fyrir þessum athöfnum. Það eru einstaklingar. Þeir eiga rétt á því, það er sá háttur sem við höfum tamið okkur,“ segir Morten Messerschmidt, formaður Danska þjóðarflokksins.

Afstaða ríkisstjórnarinnar er hins vegar sú að í Danmörku skuli tjáningarfrelsið ríkja óskorað en af virðingu við fjölmenningarsamfélagið og öryggismál í Evrópu sé ekki rétt að hafa uppi ögrandi háttsemi.

DR

DRII (danska stjórnin hyggst banna Kóranbrennur)

TV2

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert