Bandarískir og breskir skátar hafa dregið sig úr alheimsmóti skáta sem fer nú fram í Suður-Kóreu, en þar eru íslenskir skátar staddir um þessar mundir.
Skipuleggjendur skátamótsins meta nú hvort nauðsynlegt sé að binda endi á mótið fyrr en áætlað var, í ljósi bágra aðstæðna á mótssvæðinu. Þeir hafa ekki viljað gera það hingað til en alþjóðaskátasambandið hefur kallað eftir því að mótið verði stytt. Samkvæmt áætlun stendur mótið yfir til og með 12. ágúst.
Fulltrúar þátttökuríkjanna funda í dag til þess að taka ákvörðun um næstu skref.
Um 43 þúsund einstaklingar eru saman komnir á skátamótinu þar sem hiti, flugur og slæmur aðbúnaður hefur sett strik í reikninginn, líkt og mbl.is hefur greint frá.
Hundruð skáta hafa veikst eða örmagnast vegna hitans og skipuleggjendur hafa verið tilneyddir að kalla til herlækna á svæðið til að annast hina veiku og tryggja að mótið geti haldið áfram.
Þrátt fyrir að ríkisstjórn Suður-Kóreu hafi gefið fyrirheit um loftkældar hópbifreiðar og kælitrukka, tilkynnti bandaríska skátasambandið í dag að það hygðist draga skáta sína úr mótinu.
Bandarísku skátarnir verða nú fluttir til Humphrey-búðanna sem Bandaríkjaher hefur á sínum snærum í Suður Kóreu.
Breska skátasambandið tók ákvörðun um að draga sína skáta úr mótinu í gær. Skátarnir frá Singapúr munu hætta þátttöku snemma, og belgísk yfirvöld leita nú að gistingu fyrir skátana sína til þess að koma þeim frá mótssvæðinu.
Þessi ákvörðun bandarískra og breskra yfirvalda, að draga skátalið sín úr mótinu, hefur í för með sér gífurlegt bakslag fyrir orðspor Suður-Kóreu. Er það litið svo alvarlegum augum að boðað var til sérstaks neyðarfundar ríkisstjórnarinnar vegna málsins. Fallist var á að veita mótinu styrk úr ríkissjóði sem jafngildir tæplega 7 milljörðum íslenskra króna, svo hægt sé að bjarga því fyrir horn og bæta aðbúnað skátanna.
Til viðbótar við hitann hafa um 70 skátar greinst með Covid-19. Suður kóreskir fréttamiðlar hafa kallað mótið þjóðarskömm. Á samfélagsmiðlum hefur mótinu verið líkt við þáttaröðina Squid game.