Donald Trump fyrrverandi forseti Bandaríkjanna lét svo sannarlega í sér heyra þegar ljóst var að bandaríska kvennalandsliðið í fótbolta hefði dottið út úr keppni á heimsmeistaramótinu í gær. Hann gagnrýndi landsliðið harðlega og sagði tap þeirra sýna svart á hvítu hvað gerðist undir stjórn Joe Biden, forseta Bandaríkjanna.
AFP greinir frá því að Trump hafi látið orðin falla á samfélagsmiðli sínum Truth social. Þar hafi hann ritað eftirfarandi:
„Margir af leikmönnunum okkar eru opinberlega fjandsamlegir gagnvart Bandaríkjunum – Ekkert annað land lét svona, eða nálægt því. Meðvitaður er sama sem misheppnað. Flott skot Megan.“
Sú Megan sem Trump á við er Megan Rapinoe, einn fyrirliða bandaríska liðsins en skot hennar geigaði í vítaspyrnukeppni. Rapinoe er 38 ára gömul og mun þetta vera hennar fjórða og jafnframt seinasta heimsmeistaramót áður en hún leggur skóna á hilluna.
Á meðan Trump gagnrýndi frammistöðu liðsins sagði Jill Biden forsetafrú á Twitter að hún elskaði að horfa á Rapinoe spila.
„Sem talskona jafnra launa og jafnréttis þá lést þú okkur fylgjast með og breytast. Við getum ekki beðið eftir að sjá hvað þú gerir næst Megan."
.@mPinoe, I love watching you play. As an athlete and an advocate for equal pay and equal rights – you made us pay attention and change.
— Jill Biden (@FLOTUS) August 6, 2023
We can't wait to see what you do next, Megan. https://t.co/03aua1g1Fp