Trump gagnrýnir bandaríska landsliðið

Trump gagnrýndi frammistöðu liðsins og Rapinoe sérstaklega.
Trump gagnrýndi frammistöðu liðsins og Rapinoe sérstaklega. AFP/Melissa Sue Gerrits, Saeed Khan

Donald Trump fyrrverandi forseti Bandaríkjanna lét svo sannarlega í sér heyra þegar ljóst var að bandaríska kvennalandsliðið í fótbolta hefði dottið út úr keppni á heimsmeistaramótinu í gær. Hann gagnrýndi landsliðið harðlega og sagði tap þeirra sýna svart á hvítu hvað gerðist undir stjórn Joe Biden, forseta Bandaríkjanna.

AFP greinir frá því að Trump hafi látið orðin falla á samfélagsmiðli sínum Truth social. Þar hafi hann ritað eftirfarandi:

„Margir af leikmönnunum okkar eru opinberlega fjandsamlegir gagnvart Bandaríkjunum – Ekkert annað land lét svona, eða nálægt því. Meðvitaður er sama sem misheppnað. Flott skot Megan.“

Sú Megan sem Trump á við er Megan Rapinoe, einn fyrirliða bandaríska liðsins en skot hennar geigaði í vítaspyrnukeppni. Rapinoe er 38 ára gömul og mun þetta vera hennar fjórða og jafnframt seinasta heimsmeistaramót áður en hún leggur skóna á hilluna.

Á meðan Trump gagnrýndi frammistöðu liðsins sagði Jill Biden forsetafrú á Twitter að hún elskaði að horfa á Rapinoe spila. 

„Sem talskona jafnra launa og jafnréttis þá lést þú okkur fylgjast með og breytast. Við getum ekki beðið eftir að sjá hvað þú gerir næst Megan."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert