Óhætt er að segja að árásin á Úkraínu hafi ekki farið eins og Vladímír Pútín Rússlandsforseti hugsaði sér. Hernaðarlega hefur hún orðið rússneska hernum óendanleg niðurlæging, en það er þó ekki síður á hinu pólitíska sviði, sem afleiðingarnar hafa verið þveröfugar, Atlantshafsbandalagið hefur eflst og mun að líkindum halda áfram að stækka, beinlínis vegna uppivöðslusemi Rússa.
Samt er það svo að Úkraínu hefur ekki tekist að þoka Rússum mikið í margboðaðri gagnsókn. Meðan svo horfir gæti stríðið dregist á langinn. En þrátt fyrir að lítið mjakist til eða frá í fremstu víglínu, þá er hernaðurinn kostnaðarsamur og ef efnahagslífið stendur ekki undir stríðinu, þá tapast það.
Í gær hækkaði rússneski seðlabankinn stýrivexti í 12%, skömmu eftir að að rúblan féll niður fyrir sentið gagnvart bandaríkjadal, sem er ekki síður sálrænt áfall en efnahagslegt.
Verðbólgan er raunar „aðeins“ 4,4%, en að landinu steðjar margur frekari vandi. Þrátt fyrir öll viðskiptabönnin hefur innflutningur aukist hraðar en útflutningur, en innanlandsframleiðsla annar ekki eftirspurn og þykir oft mun lakari en sú vestræna.
En það var þá og nú er staðan breytt.
Á markaði hafa menn lengi vænst gjaldeyriskreppu í Rússlandi og nú er hún dunin yfir. Það gerist í sama mund og útflutningstekjur dragast ört saman, refsiaðgerðir vestrænna eru loks farnar að bíta á fjölmörgum sviðum og fólksflótti til Vesturlanda er farinn að segja til sín.
Rúblan hefur fallið um 40% síðan í upphafi liðins vetrar, þegar það kom í ljós við hvað Rússland átti að etja í Úkraínu.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.