Fleiri flýja heimili sín á Tenerife

Enn bætist í hóp þeirra sem hafa þurft að yfirgefa …
Enn bætist í hóp þeirra sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna skógareldana á Tenerife. AFP

Viðbragðsaðilar hafa aftur misst stjórn á gróðureldunum á Tenerife þar sem vindur stigmagnaðist í nótt og hitastig hækkar. Eldurinn breiðist ört út og hafa enn fleiri íbúar á norðurhluta spænsku eyjunnar þurft að flýja heimili sín. AFP greinir frá.   

Eldarnir sem brutust fyrst út síðla þriðjudags eru að sögn yfirvalda þeir „flóknustu“ sem geisað hafa á Kanaríeyjum í meira en 40 ár.

Umfram getu slökkviliðsins

Slökkviliðsmenn á svæðinu segjast ekki hafa burði til ráða við eldana, en erfitt hefur reynst að ráða niðurlögum þeirra vegna stórra reykskýja og kraftmikils vinds á svæðinu sem gerir slökkviliðsstarf erfiðara.

Í gær höfðu 4.500 manns neyðst til þess að yfirgefa heimili sín vegna eldana, en ekki liggur fyrir hversu margir hafa bæst í þann hóp í nótt og í morgun. 

76.000 hektarar eyðilagðir

„Eldurinn og veðrið hafa breyst og við höfum þurft að rýma fimm sveitarfélög á norðurhluta Tenerife,“ sagði Manuel Miranda, yfirmaður neyðarþjónustuteymis eyjanna í færslu sinni á samfélagsmiðlinum X fyrr í dag.  

Það sem af er ári hafa 340 skógareldar eyðilagt tæplega 76.000 hektara af landi á Spáni, en Spánn er eitt þeirra Evrópulanda sem er hvað viðkvæmast fyrir loftslagsbreytingum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert