Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, staðfesti í dag að hann taki ekki þátt í fyrstu forvalskappræðum Repúblikanaflokksins á miðvikudaginn.
Þetta staðfesti hann í færslu á samfélagsmiðlinum Truth Social, en Trump telur þess vera óþörf að rökræða við mótframbjóðendur sína í forvalinu, þar sem hann leiði í skoðanakönnunum með 46 stigum.
Trump hefur átt vægast sagt erilsamt ár en fjórar ákærur hafa verið gefnar út á hendur honum í fjórum ríkjum.
Teikn hafa þegar verið á lofti um að Trump myndi sleppa því að mæta í kappræðurnar.
The New York Times hefur greint frá því að aðstoðarmenn Trumps hafi sagt að hann myndi sleppa kappræðunum, sem skipulagðar eru af fjölmiðlinum Fox News, og mæta frekar í viðtal til Tuckers Carlsons, fyrrverandi þáttastjórnanda hjá Fox News.
„Ný CBS-könnun [sem er] komin út, sýnir að ég leiði með „goðsagnakenndum“ tölum. Trump 62%, 46 prósentustigum yfir DeSanctemonius (sem hrapar eins og þjáður fugl)“ skrifar Trump á samfélagsmiðla og vísar þar í mótframbjóðanda sinn Ron DeSantis, sem hann uppnefnir skinhelgan.
„Ég mun þess vegna ekki mæta í kappræðurnar,“ skrifar hann í stórum stöfum.