Rússneska hershöfðingjanum Sergei Súróvíkin hefur verið vikið úr starfi yfirmanns rússneska flughersins, að sögn ríkisfjölmiðla þar í landi að því er AFP greinir frá. Hann var um tíma æðsti yfirmaður rússnesku herjanna í Úkraínu, en var leystur frá þeim störfum í byrjun þessa árs.
Súróvíkin var þekktur fyrir grimmd og miskunnarleysi og ávann sér það orðspor í innrásarstríði Sovétríkjanna sálugu í Afganistan. Þá fékk hann viðurnefnið „Harmageddón hershöfðingi“ fyrir framgöngu sína í Sýrlandi.
Súróvíkin komst á ný í fréttirnar eftir skammvinna uppreisn Wagner málaliðahópsins í júní sl. en var handtekinn í kjölfarið, grunaður um stuðning við Wagner. Þegar spurst var fyrir um afdrif hans hélt talsmaður rússneskra stjórnvalda því fram að Súróvíkin væri að „hvíla sig“.
Í maí sl. þegar Jevgení Prígósjín, yfirmaður Wagner hópsins, sakaði yfirmenn rússneska hersins um að hafa ekki útvegað málaliðum sínum nægjanlegt magn skotfæra, birtust fréttir um að Súróvíkin væri mögulega milliliður málaliðahópsins og hersins, enda sögð náin tengsl á milli hans og Prígósjíns.
Rússneskir ríkisfjölmiðlar greina og frá því að Viktor Afzalov hershöfðingi myndi tímabundið taka við starfi yfirmanns flughersins í stað Súróvíkins.