Súró­vík­in settur af

Sergei Súróvikin hefur verið rekinn úr starfi.
Sergei Súróvikin hefur verið rekinn úr starfi. Ljósmynd/Wikipedia.org

Rússneska hershöfðingjanum Sergei Súró­vík­in hefur verið vikið úr starfi yfirmanns rússneska flughersins, að sögn ríkisfjölmiðla þar í landi að því er AFP greinir frá. Hann var um tíma æðsti yfirmaður rússnesku herjanna í Úkraínu, en var leystur frá þeim störfum í byrjun þessa árs.

Súró­vík­in var þekktur fyrir grimmd og miskunnarleysi og ávann sér það orðspor í innrásarstríði Sovétríkjanna sálugu í Afganistan. Þá fékk hann viðurnefnið „Harmageddón hershöfðingi“ fyrir framgöngu sína í Sýrlandi.  

Súró­vík­in komst á ný í fréttirnar eftir skammvinna uppreisn Wagner málaliðahópsins í júní sl. en var handtekinn í kjölfarið, grunaður um stuðning við Wagner. Þegar spurst var fyrir um afdrif hans hélt talsmaður rússneskra stjórnvalda því fram að Súró­vík­in væri að „hvíla sig“.

Í maí sl. þegar Jevgení Prígósjín, yfirmaður Wagner hópsins, sakaði yfirmenn rússneska hersins um að hafa ekki útvegað málaliðum sínum nægjanlegt magn skotfæra, birtust fréttir um að Súró­vík­in væri mögulega milliliður málaliðahópsins og hersins, enda sögð náin tengsl á milli hans og Prígósjíns.

Rússneskir ríkisfjölmiðlar greina og frá því að Viktor Afzalov hershöfðingi myndi tímabundið taka við starfi yfirmanns flughersins í stað Súró­vík­ins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert