Forseti Rússlands, Vladimír Pútín, ávarpaði BRICS-löndin á leiðtogafundi bandalagsins í dag. Innganga sex ríkja í bandalagið var tilkynnt í dag, en Pútín minntist ekki orði á flugslysið sem var Jevgení Prigósjín, leiðtoga Wagner-málaliðahópsins, að bana í gær.
Leiðtogar BRICS-ríkjanna eru samankomnir í Jóhannesarborg í Suður-Afríku, en Pútín sendi kveðjur sínar og ávarp í gegnum myndbandshlekk. Í ávarpi sínu kvaðst Pútín þakklátur leiðtoga Suður-Afríku, Cyril Ramaphosa, fyrir að halda fundinn.
Alþjóðleg handtökuskipun hefur verið gefin út á Pútín vegna meintra stríðsglæpa og kom því fáum á óvart að forsetinn skyldi halda sig heima, þrátt fyrir að Ramaphosa hafi gefið í skyn að hann myndi ekki fyrirskipa handtöku Pútíns.
Suður-Afríka viðurkennir dómstólinn og ætti því reglum samkvæmt að fylgja eftir handtökuskipuninni. Ramaphosa hefur hins vegar sagt að handtaka Pútíns á suður-afrískri grundu myndi jafngilda stríðsyfirlýsingu.
Vakti það athygli að forsetinn minntist ekki einu orði á flugslys gærdagsins sem varð Prigósjín og níu mönnum hans að bana. Upplýsingaveita Wagner-hópsins hefur sakað rússnesk stjórnvöld um að hafa skotið flugvélina niður og eru hernaðarsérfræðingar víða á sama máli.
Prigósjín var eitt sinn bandamaður Rússlandsforseta en fór fyrir misheppnaðri valda-ránstilraun gegn Pútín í júní og hefur andað köldu milli foringjanna tveggja undanfarin misseri.
Rússland ásamt Brasilíu, Indlandi, Kína og Suður-Afríku, mynda BRICS-bandalagið, en tilkynnt var á leiðtogafundinum að bandalagið hygðist taka inn sex lönd til viðbótar: Argentínu, Egyptaland, Eþíópíu, Íran, Sádí-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmin.
Innganga landanna sex í bandalagið tekur gildi frá og með janúar 2024.