Norðmenn gefa Úkraínumönnum herþotur

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sést hér standa við danska herþotu af …
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sést hér standa við danska herþotu af gerðinni F-16 í flugskýli í Vojens í Danmörku um helgina. AFP

Noregur verður þriðja þjóðin sem mun gefa Úkraínumönnum herþotur af gerðinni F-16, en markmiðið er að styrkja flugher landsins sem byggir mikið á vélum frá tímum Sovétríkjanna. 

Greint er frá þessu í norskum fjölmiðlum. Það er þó hvorki tekið fram um hversu margar flugvélar er að ræða né hvenær eigi að afhenda þær. 

Norska varnarmálaráðuneytið gat þó hvorki staðfest né neitað þessu fréttum þegar AFP-fréttaveitan hafði samband til að spyrjast fyrir um málið. 

Í dag kom Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, í óvænta heimsókn til Kænugarðs, höfuðborgar Úkraínu. Það vill svo til að í dag er þjóðhátíðardagur Úkraínu þegar þess er minnst að ríkið öðlaðist sjálfstæði frá Sovétríkjunum árið 1991. 

Á meðan heimsókn Støre stóð var tilkynnt um að norsk stjórnvöld muni útvega Úkraínumönnum flugskeyti, búnað til að finna og fjarlægja jarðsprengjur og 1,5 milljarða norskra króna fjárhagsaðstoð, sem samsvarar um 18,7 milljörðum íslenskra króna, sem á að renna í kaup á gasi og rafmagni fyrir komandi vetur. 

Aftur á móti hefur engin formleg tilkynning verið send vegna F-16 vélanna. Það er hins vegar fyrirhugað að Støre haldi blaðamannafund í Kænugarði síðar í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert