Flugriti vélar Prigósjíns fundinn

Flak flugvélar Prigósjíns í björtu báli.
Flak flugvélar Prigósjíns í björtu báli. AFP

Flugriti flugvélarinnar sem fórst nærri Moskvu sl. miðvikudag er fundinn og lík þeirra tíu sem um borð voru hafa verið flutt á brott. Um borð í vélinni var leiðtogi Wagner-málaliðasveitarinnar, Jevgení Prigósjín, ásamt fleiri framámönnum sveitarinnar, auk tveggja flugmanna og flugfreyju.

Getum hefur verið leitt að því að rússnesk stjórnvöld beri ábyrgð á því að flugvélin fórst, en því neitar talsmaður þeirra, Dmitrí Peskov, harðlega og segir „fullkomna lygi“.

Ekki í heilu lagi

Sjónarvottar að hrapi vélarinnar hafa greint frá því að flugvélin hafi ekki verið í heilu lagi þegar hún steyptist til jarðar og kenningar eru uppi um að hún hafi annað hvort verið skotin niður eða grandað af sprengju sem komið hafi verið fyrir um borð.

Peskov sagði á blaðamannafundi í dag að margvíslegar vangaveltur væru í gangi vegna slyssins og á Vesturlöndum væru þær frá sama sjónarhorninu. „Þetta er allt lygi,“ er haft eftir honum og bætti hann við að varpa þyrfti ljósi á hvað gerst hefði, en orsök þess að flugvélin hrapaði til jarðar er nú sögð til rannsóknar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert